138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

reglugerð um gjafsókn.

380. mál
[15:23]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Málaflokkur mannréttinda hefur verið í dómsmálaráðuneyti um árabil og okkur er að sjálfsögðu umhugað um þann málaflokk. Það er alveg hárrétt að skilyrði þess að fá gjafsókn mega ekki vera með þeim hætti að þau takmarki beinlínis aðgang einstaklinga að dómskerfinu. Eins og ég sagði í fyrra svari mínu þá er línan lögð í lögum um meðferð einkamála, það verður að gera einstaklingi kleift að gæta hagsmuna sinna í dómsmáli. Það er þá gert ef það yrði honum fyrirsjáanlega ofviða að gera það. Ég held því að ég og hv. fyrirspyrjandi getum verið sammála um að tryggja verði aðgengi einstaklinga að dómstólum og ég tala ekki um ef stjórnvöld eru beinlínis að beina fólki til dómstóla með ágreining þá þarf auðvitað að huga sérstaklega að því hvernig greiða á götu einstaklinganna til að sækja sinn rétt, það þarf ekki að leysa þann ágreining fyrir dómstólum. Það er mjög æskilegt, mundi ég segja, að ágreiningur væri leystur áður en í dómsalinn kæmi og þess vegna nefndi ég það að við erum að huga að smámálameðferð eða sáttameðferð. Ég tel — af því að það er enn einn málaflokkurinn sem hefur komið til dómsmálaráðuneytisins, það eru neytendamálin — að það sé þá hluti af því að styrkja rétt neytenda hér á landi að koma á einhverju úrræði þannig að ekki þyrfti að leita til dómstóla með öll ágreiningsmál.