138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

umhverfismerki á fisk.

251. mál
[15:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er með fimm fyrirspurnir til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þær ganga allar út á umhverfismerki á fisk. Ég vil vita hver staðan er á vinnu við íslensk umhverfismerki á fisk og hvort slíkt merki fær bráðum vottun þriðja aðila. Og ef ekki, hver er ástæða þess. Ég vil líka spyrja hvort ráðherra sé kunnugt um fyrirstöðu fyrir því að íslenskar fiskafurðir uppfylli umhverfisvottun og hvort þess séu dæmi að íslenskir fiskútflytjendur hafi misst markaðshlutdeild af því að þeir eru ekki með umhverfismerktar fiskafurðir eða eigi það á hættu. Ef svo er, hvaða þjóðir hafa aukið markaðshlutdeild á okkar kostnað? Ég spyr líka hvort hæstv. ráðherra hafi upplýsingar um að seljendur íslenskra fiskafurða verði í auknum mæli varir við óskir um umhverfismerkingar.

Þannig er, virðulegi forseti, að það eru tveir skólar í þessu máli. Það er annaðhvort að taka upp umhverfismerki, sem er þekkt á alþjóðavettvangi, eða taka upp séríslenskt umhverfismerki, sem við mundum þá merkja okkar fisk með, og menn deila um þessa tvo skóla. LÍÚ hefur frekar aðhyllst seinni skólann, þ.e. að við ættum að taka upp íslenskt umhverfismerki. Það er vegna þess að þeir hafa ákveðinn fyrirvara á þeim umhverfismerkjum sem nú þegar eru í gangi á fiskafurðum. Ég get nefnt sem dæmi að það umhverfismerki sem nágrannaríki okkar hafa tekið upp sem er MSC, Marin Stewardship Councel — hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafa talsverðan fyrirvara á því og telja að það merki sé of nálægt umhverfissamtökum. Ég dreg það reyndar svolítið í efa, virðulegi forseti, og mig langar að spyrja hvar þessi mál standa.

Á sínum tíma misstum við markaðshlutdeild í Sviss af því að við vorum ekki með umhverfismerki. Það fyrirtæki sem þar var hafði beðið um að fá umhverfismerki til að geta merkt sína vöru en ekki var orðið við því á þeim tíma. Stjórnvöld tóku við sér og settu þetta í ferli en síðan hefur allt verið á alveg ótrúlega litlum hraða, hraða snigilsins, svo ég vitni í fleyg orð. Þetta átti allt að fara af stað í árslok 2007 og þá sagði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem var þá sjávarútvegsráðherra, að þetta kæmist allt af stað fyrir árslok 2007. Síðan átti þetta allt að fara af stað ári síðar og þetta átti í síðasta lagi að fara af stað á síðasta ári en þetta er ekki komið af stað enn. Ég vil því spyrja: Hvernig standa þessi mál? Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af þessari stöðu?

Nú er ljóst að Færeyingar eru að taka upp vottun á fyrstu veiðum sínum í þessum mánuði sem eru, að mér skilst, síldveiðar í nót. Norðmenn eru að klára sína vottun og þetta er allt MSC-vottun sem ég er að vitna í af því að hin löndin hafa ákveðið að taka upp MSC-vottun, ekki sérnorska, sérfæreyska eða sérdanska vottun. Hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki áhyggjur af þessu máli? Þurfum við ekki að fara að drífa í þessu?