138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

umhverfismerki á fisk.

251. mál
[15:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessa spurningu og fyrir að vekja umræðu um stöðu merkinga á fiskafurðum okkar með tilliti til þess að við stundum sjálfbærar og ábyrgar fiskveiðar.

Ef ég svara þessum spurningum hv. þingmanns í heild sinni, því að þær spinna hver inn í aðra, þá er það alveg hárrétt að verið er að vinna að íslensku merki fyrir ábyrgar fiskveiðar og þetta merki lítur út eins og það sem ég er með á þessu blaði þar sem stendur „Iceland“ og síðan „Responsible fisheries“ á ensku sem þýðir þá Ísland og ábyrgar fiskveiðar. Það vísar til íslensks uppruna sjávarafurða og til yfirlýsingarinnar um ábyrgar veiðar sem smám saman eru einmitt að vinna sér sess á mörkuðum. Nálægt 50 aðilar hafa sótt um leyfi til notkunar þessa merkis, bæði innlendir framleiðendur, markaðs- og sölufyrirtæki ásamt erlendum kaupendum. Merkið er notað á umbúðir sjávarafurða, á heimasíðum og í auglýsingaskyni. Merkið ásamt vottunaráformum hefur verið kynnt á sjávarútvegssýningum, fundum og á ráðstefnum og hefur almennt verið vel tekið. Vinna vegna þessa hefur verið unnin af hagsmunaaðilum, Fiskifélagi Íslands, með stuðningi og velvilja ráðuneytisins. Undirbúningur að vottun óháðs þriðja aðila gengur vel og er samkvæmt áætlun og er einmitt verið að vinna að því að yfirfara drög að því. Vinna við kröfulýsingu ásamt nauðsynlegum fylgiskjölum er unnin á eins faglegan hátt og frekast er unnt.

Vottun sú sem unnið er að, og ég benti á, byggir á leiðbeiningarreglum FAO en í þeim reglum er kveðið á um að vottun ólíkra aðila skuli teljast jafngild ef hún samrýmist þeim leiðbeiningarreglum sem FAO leggur upp. Samið var við erlent vottunarfyrirtæki um ráðgjöf vegna lokaframgangs vottunarskjala til að tryggja vottunarhæfni þeirra. Sér nú fyrir enda þess ferlis og styttist í að unnt verði að gefa út tilkynningu um að vottunarferli verði hafið.

Erlendir kaupendur hafa verið upplýstir um vottunaráform Íslendinga og hefur þeim áformum verið tekið vel. Umhverfismerki og vottun þriðja aðila er eitt af mörgum markaðstækjum sem notuð eru á markaði með fiskafurðir. Kaupendur íslenskra sjávarafurða eru langflestir mjög vel upplýstir hvernig staðið er að stjórnun fiskveiða á Íslandi. Staðfesting óháðs þriðja aðila á ábyrgri nýtingu sjávarauðlinda mun mjög styrkja stöðu íslensks sjávarútvegs á mörkuðunum. Mestu máli skiptir í öllu þessu samhengi að Ísland geti sýnt fram á að hér séu stundaðar ábyrgar fiskveiðar og þannig tryggt að Ísland hafi góða og sannfærandi sögu að segja þegar til þess kemur að greina frá stjórn fiskveiða. Þessi ábyrgð liggur að sjálfsögðu hjá íslenskum stjórnvöldum sem fara með og munu áfram fara með stjórn fiskveiða, þ.e. laga- og reglugerðarsetningu sem að því lýtur og þá rannsókna- og gagnaöflun sem sú lagasetning byggist á. Merki og vottun eru tæki sem aðilar geta valið sér til að nota eftir efnum og ástæðum hverju sinni en ég tek alveg undir þær áherslur sem hv. þingmaður vakti athygli á en það er mjög mikilvægt fyrir þá sem eru að selja þessa íslensku vöru erlendis að þeir geti sýnt fram á að hún sé veidd og unnin á umhverfisvænan hátt og auðlindin sé nýtt með sjálfbærum hætti.

Sú merking sem hv. þingmaður minntist á, MSC-merki, er líka merki sem er í gangi. Það hefur ekki mér vitanlega verið lagt í að innleiða það hér þó svo að einstök fyrirtæki hafi þar um samstarf við þá vottunaraðila. Það sem ég þekki varðandi það merki sem hér er verið að vinna með er lögð áhersla á að farið sé að öllum þeim leikreglum og kröfum sem FAO leggur upp og í þeirri umfjöllun get ég bent á að í sumum atriðum er þar jafnvel gengið lengra en er í MSC-merkinu. En mikilvægt er að kynningin á þessu sé sem best og líka þá staðfesting á því að hér sé um íslenskar vörur að ræða því Ísland hefur í sjálfu sér, varðandi fiskveiðar og verslun með sjávarafurðir, á sér sérstakan gæðastimpil sem líka er mikilvægt að láta koma fram.