138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

umhverfismerki á fisk.

251. mál
[15:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Merkið er í sjálfu sér komið í virkni víða, á mörgum mörkuðum. (SF: Nei, það er óvottað.) Það er kynnt þar og er þegar (Gripið fram í.) til mikils stuðnings. Ég var í Þýskalandi fyrir nokkrum dögum síðan, á fiskmörkuðum þar. Þar var einn stærsti fiskkaupandinn þar, Peter Dill sem er yfirforstjóri Deutsche See, og hann sagði: Það sem ég legg áherslu á í þessum merkingum er að það standi á öllum pökkum „frá Íslandi“. Reyndar er hann líka með þetta merki á þeim en hann sagði að það væri líka gæðastimpill og á svona mörkuðum þar sem reynt væri að ná mjög háu verði á mjög samkeppnishörðum mörkuðum skiptu líka þessi atriði máli. Ef það væri bara ein allsherjarmerking sem ekki gerði greinarmun á þessum uppruna ættum við erfiðara með að keppa um hæsta verðið.

Hv. þingmaður spurði hvort eitthvað hefði valdið okkur vandræðum. Já, t.d. varðandi karfann, sem hefur farið aðallega á Þýskalandsmarkað, kom upp að vegna þess að skipt er í gullkarfa og djúpkarfa og önnur tegundin er talin ofveidd og hin ekki hafði það áhrif ef ekki var hægt sannanlega að greina á milli þess á mörkuðunum. Það hvernig við umgöngumst miðin okkar hefur áhrif. Línuveiddur þorskur, „line cod“, eða línuveiddur fiskur er líka vörumerki. Að öðru leyti hefur verið sú stefna að það samhæfða merki sem gildir fyrir íslenskar sjávarafurðir, Iceland Responsible Fisheries, er þegar komið og búið að hasla sér völl. Það er alveg hárrétt, lokavottun lýkur vonandi fljótlega (Forseti hringir.) og þá vona ég að það sé hægt af hálfu útvegarins því það er sjávarútvegurinn sjálfur sem hlýtur að standa undir (Forseti hringir.) markaðskynningu á merkinu sem slíku.