138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

matvæli og fæðuöryggi á Íslandi.

379. mál
[15:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni fyrir þessa spurningu varðandi fæðuöryggið og hver sé opinber stefna í þeim efnum. Ég vil fyrst vitna til samstarfsyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar“.

Það er hin opinbera stefna og mér sýnist hún án alls efa vera afdráttarlaus. Það er einnig sá grunntónn sem er nú þegar unnið eftir í landbúnaðarráðuneytinu. Í búvörulögum frá 1993, sem enn gilda, stendur, með leyfi forseta:

„að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu.“

Í þessu felst í sjálfu sér stefnumörkun sem hefur verið útfærð með ýmsum hætti.

Þá má einnig nefna að rannsóknar- og nýsköpunarstarf beinist mjög að því að hámarka sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda til lands og sjávar og þróa hana til aukinnar framleiðslu sem vissulega stuðlar að auknu fæðuöryggi þjóðarinnar. Landbúnaðarráðuneytið hefur beitt sér í þessum málum og rétt er að nefna nýútkomna skýrslu í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu um notkun og varðveislu ræktaðs lands. Í nefndarálitinu er allítarlega fjallað um fæðuöryggi, bæði í heiminum og á Íslandi sérstaklega, og að mati nefndarinnar sem vann skýrsluna er það vert umhugsunarefni fyrir Íslendinga hvernig best verði staðið að því að tryggja stöðugt fæðuframboð fyrir þjóðina til lengri tíma. Einnig væri rétt að vinna að stefnumótun um hvernig fæðuframboð verði tryggt við þær aðstæður sem upp kynnu að koma t.d. vegna farsótta, ófriðar eða annarra atriða sem torveldað gætu matvæla- og aðfangaflutninga til landsins. Ég er sammála því að nauðsynlegt sé að öll þessi atriði séu nákvæmlega skilgreind og þannig sé einnig skilgreint fæðuöryggi þjóðarinnar sem ætti að vera tryggður grunnur.

Margs konar önnur verkefni í ráðuneytinu og stofnunum þess lúta að fæðuöryggi með beinum og óbeinum hætti. Við höfum nýlokið skýrslu um úttekt á því hvernig eigi að efla svínarækt í landinu, því eins og við vitum er svínakjötsframleiðsla ein af stærri neysluvöruframleiðslugreinum í landinu, og hvernig tryggja megi stöðu hennar og öryggi. Unnið er að svipuðum hlutum varðandi hænsnarækt. Búvörusamningur er á milli ríkisins og mjólkurframleiðenda og framleiðsla í sauðfjárrækt, sem er að hluta til líka og hefur það pólitíska markmið að tryggja ákveðið öryggi í framleiðslu á þessum vörum til neytenda og tryggja ákveðin gæði í þeim efnum. Þarna liggur því víða pólitískur grunnur til að tryggja fæðuöryggi. Hins vegar er ljóst að það þarf að vinna enn betur og þess vegna er unnið í ráðuneytinu að því að skilgreina enn betur fæðuöryggi þjóðarinnar og hvernig það verður tryggt með aðgangi að landi og þeim náttúruauðlindum sem þær byggja á.

Vert er að minna á hvað aðrar þjóðir eru að gera í þessum efnum og að þær geta hæglega sótt hingað. Barátta um ræktun á landi harðnar. Við þekkjum það erlendis frá að efnuð fyrirtæki og önnur ríki fjárfesta í ræktunarlandi og vatni, t.d. hafa olíuríkin við Persaflóa keypt upp ræktunarland í fátækum þróunarríkjum. Kína hefur keypt 2,8 milljónir hektara ræktaðs lands í Kongó, Suður-Kórea hefur keypt upp 600 þúsund hektara í Súdan og Úkraína, sem glímir við mikil efnahagsvandræði, var áður eitt af kornforðabúrum heimsins en gerði þau mistök að selja 40 þúsund hektara til bankans Morgans Stanleys til að bæta efnahag sinn. Það er ljóst að slagurinn um ræktaða landið, um fæðuöryggi, harðnar í heiminum og við þurfum svo sannarlega líka að gæta okkar og taka á í þeim efnum.

Sagt er að það sé skylda hverrar þjóðar að tryggja fæðuöryggi þegna sinna. Það er alveg ljóst að fæðuöryggið, það að vera sem mest sjálfbjarga um sínar nauðþurftir hvað fæðu varðar, sé hluti af sjálfstæði hverrar þjóðar. Þess vegna er ég alveg sammála því að við þurfum að setja okkur enn skýrari mörk um hvernig við ætlum að ná markmiðum t.d. í kornrækt sem nú er vaxandi hér á landi. Það er alveg hægt að setja sér mörk t.d. í kornframleiðslu sem menn hér á landi ætla sér að ná á næstu fimm árum og næstu tíu árum (Forseti hringir.) til innlendrar fóðuröflunar, til að fóðra íslenskan búpening, og einnig (Forseti hringir.) til manneldis. Ég tel (Forseti hringir.) mjög mikilvægt að við vinnum að þessum mörkum og setjum þau.