138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

matvæli og fæðuöryggi á Íslandi.

379. mál
[15:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég vil aftur vekja athygli á þeim samningum sem ríkisvaldið hefur gert við bændur, bæði mjólkurframleiðendur og sauðfjárframleiðendur, varðandi framleiðslu á kjöti og mjólk, samningum sem Alþingi hefur samþykkt. Ég vil segja það hér vegna þess að eitt það fyrsta sem þessir flokkar gerðu á sl. vori var að framlengja þessum búvörusamningum sem að vísu fólu í sér nokkra skerðingu á greiðslum til bænda en þó var það líka mikil áframhaldandi trygging að þeir skyldu vera endurnýjaðir og þá til viðbótar til ársins 2014 og 2015. Ríkisstjórnin er því að mínu mati virkilega að vinna samkvæmt því sem þarna er kveðið á um, m.a. til að tryggja framleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar.

Þannig verður áfram unnið, eins og ég rakti í stuttu máli mínu áðan, á grundvelli þessara áherslna. Til áréttingar vil ég líka minna á það að við setningu búnaðarþings fyrir ári síðan lagði forseti Íslands áherslu á að móta þyrfti sáttmála sem tryggi í framtíðinni fæðuöryggi Íslendinga. Slíkur sáttmáli gæti orðið grundvöllur að skipulagi framleiðslunnar, nýjum reglum um nýtingu lands og skapað markaðsþróun raunhæfan farveg. Sameinast verði um að íslenskur landbúnaður geti um alla framtíð tryggt fæðuöryggi þjóðarinnar. Einmitt á grundvelli þessa og þeirrar stefnuyfirlýsingar sem ég lýsti áðan hef ég sett á fót starfshóp sem nú vinnur að því að skilgreina fæðuöryggi þjóðarinnar og hvernig hægt er að knýta enn þá fastar (Forseti hringir.) með lögum og reglum að þau landgæði sem við eigum geti verið varin og nýtt til landbúnaðarframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar (Forseti hringir.) þar með tryggt í bráð og lengd.