138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur algerlega brugðist því hlutverki sínu að veita þjóðinni leiðbeiningu og skýr svör vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem ákveðin hefur verið á laugardaginn. Í fyrirspurnatíma á þriðjudaginn var spurði ég hæstv. forsætisráðherra að því hvort ekki væri öruggt að þjóðaratkvæðagreiðslan mundi fara fram. Engin skýr svör bárust.

Síðast í morgun heyrði ég í útvarpinu viðtal við hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann hélt því enn opnu að svo kynni að fara að þjóðaratkvæðagreiðslan færi ekki fram, að lögð yrði fram tillaga á þinginu um að hún yrði afturkölluð. Ég verð að segja að mér finnst þinginu gróflega misboðið með þessari framgöngu forustu ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Mér finnst íslenskum almenningi misboðið vegna þess að ríkisstjórnin hefur þá skyldu að framkvæma lög, veita leiðbeiningu og skýr svör. Það er algerlega kristaltært að nú þegar einungis tveir dagar eru þangað til þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram þurfa að koma skýr svör frá þinginu. Þess vegna lýsi ég því yfir að allar tilraunir til þess að hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna verða felldar af stjórnarandstöðunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við munum standa gegn öllum slíkum tilraunum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þess vegna skulum við nota þennan fyrirspurnatíma til að taka af öll tvímæli um að þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram á laugardaginn. Ég vil biðja hæstv. fjármálaráðherra í ljósi þess að allar hugmyndir til að hætta við verða stöðvaðar af stjórnarandstöðunni, að hann noti tækifærið og taki af öll tvímæli í þessu efni.

Ég vil líka biðja hæstv. fjármálaráðherra að svara því hvort það sé ekki augljóst að íslenskum hagsmunum er best borgið með því að fólk mæti á laugardaginn og segi nei. Þetta hlýtur að vera augljóst nú þegar liggur fyrir vilji Breta og Hollendinga (Forseti hringir.) til að ná samkomulagi sem er miklum mun hagstæðara en þeir samningar sem kláraðir voru í lok síðasta árs.