138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave.

[10:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að ekki þurfi að ræða þetta í miklum æsingi. Ég held að það hafi alltaf legið fyrir að þessi kosning fari fram nema breyttar aðstæður og pólitísk samstaða byði upp á eitthvað annað. Ég man ekki betur en að ég hafi sagt 6. eða 7. janúar, eða hvenær það var, að að sjálfsögðu færi þjóðaratkvæðagreiðslan fram í samræmi við stjórnarskrá okkar nema það væru einhverjar þær breyttar forsendur sem samstaða væri um að gerði hana óþarfa eða að ný lausn væri á borðinu. Að því höfum við verið að vinna í góðu samstarfi að láta á það reyna hvort möguleiki væri að ná fram og landa tímanlega niðurstöðu sem gæfi mönnum tilefni til að setjast yfir það og meta: Eru það þessar breyttu forsendur? Er það sú nýja staða sem gerir það að verkum að hægt er að ganga frá málinu með öðrum hætti, gerir lögin frá því í desember eða jafnvel bæði lögin frá því í desember og ágúst óþörf, og ný lausn á öðrum forsendum væri til staðar? Nú er tíminn að sjálfsögðu hlaupinn frá okkur í þeim efnum og ég veit ekki nákvæmlega í hvað hv. þingmaður er að vitna frá því í morgun. Alla vega sagði ég í gær að það væri best að vera ekki að tala um neitt annað að þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram úr þessu því að tíminn væri hlaupinn frá okkur, þó að tæknilega séð væri sjálfsagt hægt að hætta við hana fram undir föstudagskvöld ef út í það er farið. En það skiptir engu að síður máli að við vitum sem mest um það hvar við stöndum þegar hún fer fram og þeim mun betur sem það liggur fyrir hvers konar ný lausn kann að vera í boði og hvað þarf til að ná henni fram, þeim mun skýrara er samhengi hlutanna þegar menn fara á kjörstað á laugardaginn.