138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður þurfi ekki skýrari svör frá mér. Hann hefur svarað sjálfur fyrir hönd stjórnarandstöðunnar og tilkynnt að hún ljái ekki máls á neinu öðru úr þessu en að kosningin fari fram og það hefur væntanlega aldrei hvarflað að neinum manni að menn reyndu að fara fram í ágreiningi með mál til að afnema kosninguna rétt fyrir helgi. Það hefur aldrei neinum dottið í hug. Það hefur alltaf verið forsendan. Sérstaklega eftir því sem tíminn hefur liðið og við höfum færst nær þessum degi hefur það augljóslega verið forsendan þótt ekki væri nema af þeim ástæðum að mál fer ekki svoleiðis í gegnum þing þótt einhver reyndi það, að gera það í ágreiningi. Það er ekki svo.

Ég held að langvænlegast væri náttúrlega að hafa nýtt samkomulag á borðinu sem væri í hendi þannig að við vissum nákvæmlega hvað við hefðum frekar en að vera í óvissu um það sem gerist eftir helgina ef það er allt mjög laust í reipunum. Það má færa mjög sterk rök fyrir því að samningsstaða Íslands sé kannski sú sterkasta einmitt í augnablikinu, sterkari en bæði fyrr og síðar vegna þess að það hefur verið vilji til að reyna að fá þetta mál á hreint núna í þessari lotu. Það er alls ekki gefið að hún sé betri þegar þrýstingurinn af þjóðaratkvæðagreiðslunni (Forseti hringir.) er að baki eftir helgi.