138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

undirbúningur og kynning þjóðaratkvæðagreiðslu.

[10:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hafði ekki þau orð sem hv. þingmaður lagði mér í munn um samningsstöðuna. Ég sagði bara að það væri alls ekki gefið að það væri auðveldara að eiga við þetta mál bak kosningunum, sérstaklega ekki ef það væri þá í fullkominni óvissu og ekki tækist að búa einhvern veginn um það eða að ganga þannig frá því að við hefðum þá a.m.k. eitthvað í hendi þegar þar að kæmi.

Það sem mun að lokum alltaf renna upp fyrir mönnum er að það þarf að leysa þetta mál. Það mun ekki gleymast. Það mun ekki hverfa af yfirborði jarðar, það gufar ekki upp jafnvel þó að menn segi nei í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn við desemberlögunum. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er mér sammála yfirleitt um þetta að einhvern veginn muni að lokum alltaf þurfa að útkljá þetta Icesave-mál. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið það lengi að það sé okkur skaðlegt og dýrt hversu lengi hefur dregist að leysa það, um leið og við hljótum auðvitað öll að óska eftir því að niðurstaðan verði sú besta sem aðstæður bjóða upp á þegar hún næst.

Um erlenda fjölmiðla er ég auðvitað þakklátur fyrir leiðbeiningarnar varðandi hvernig maður á að haga sér í samskiptum við þá. Það kemur sér vel því að það er mikil ásókn af slíkum. Þeir hafa fyrst og fremst athygli á kosningunni sem slíkri og það gengur stundum erfiðlega að útskýra fyrir þeim um hvað nákvæmlega er verið að kjósa. Tæknilega er það út af fyrir sig dálítið flókið. Ég hef enga aðra betri leiðarhnoðu að styðjast við í þessum efnum en þá venjulegu, að ræða við erlenda fjölmiðla um hlutina eins og þeir eru, að segja bara satt í þeim viðtölum, ræða það bara hreinskilnislega að við erum stödd þar sem við erum stödd. Hlutirnir hafa þróast á ýmsan hátt öðruvísi en heppilegast hefði verið. Það er ekki gott að þetta skuli falla svona saman í tíma, hvorki að viðræðurnar hafi dregist svona á langinn né að rannsóknarskýrsla Alþingis komi væntanlega nokkrum dögum (Forseti hringir.) eftir kosningar.