138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

samningsstaða Íslands og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu.

[10:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Rétturinn er kjósandans. Kjósandinn ákveður það sjálfur hvort hann fer á kjörstað og ef hann fer á kjörstað hvort hann segir já, nei eða situr hjá. (Gripið fram í.) Ég ætla ekkert að fara að gefa út einhverjar „instrúksjónir“ hérna en ég heyri að aðrir eru ófeimnir við það. (Gripið fram í.)

Ég held að það sé best bara að hver beri ábyrgð á sínum orðum og ákveði fyrir sig hversu hófstillt eða hástemmd þau eru. Færi ég að reyna að gefa hér einhverjar leiðbeiningar er eins víst að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson teldi þær skaðlegar og vitlausar og er ekki einu sinni víst að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir yrði ánægð með þær, þannig að mér er nokkur vandi á höndum, en ég held að ég kjósi að hafa þetta svona. Við skulum bara láta fólkið í landinu hafa frið til þess að meta þetta sjálft og gera það sem það vill á laugardaginn, (Gripið fram í.) kjósa eins og það vill eða sitja heima. (Gripið fram í.)