138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

samningsstaða Íslands og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu.

[10:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að biðja hæstv. fjármálaráðherra að vera með einhverja einræðistilburði hér. Ég er að biðja hæstv. fjármálaráðherra um að koma með pólitíska leiðsögn í þessu erfiða máli. [Hlátur í þingsal.] Ég er að biðja hæstv. fjármálaráðherra að koma fram fyrir íslensku þjóðina og sýna leiðtogahæfileika sem ég trúi ekki öðru en að hann hafi. Hvernig telur hæstv. fjármálaráðherra hagsmunum Íslands best borgið í framhaldinu í viðræðum? Telur hann t.d., eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem var í sama útvarpsþætti og ég fyrr í vikunni, að það sé fullkomlega galið að fólk mæti á kjörstað og segi já? Það er nú einu sinni þannig að það liggur nýtt tilboð fyrir á borðinu þar sem munar, ef mér skjöplast ekki, 80 milljörðum. Getur hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) tekið undir með mér að það hljóti að vera betra að halda áfram á þeirri vegferð (Forseti hringir.) og tryggja það að íslenska þjóðin fái að fella þennan samning (Forseti hringir.) á laugardaginn kemur? (Gripið fram í.)