138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

ríkislán til VBS og Saga Capital.

[10:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svarar ekki einni einustu af þeim spurningum sem ég bar fram. Hann svaraði því ekki hvort lánið hefði verið gjaldfellt þrátt fyrir að þeir hefðu ekki staðið í skilum.

Hv. þm. Pétur Blöndal kallaði hérna fram í: Hvað með SPRON? Það samkomulag sem hæstv. fjármálaráðherra gerði við VBS og Saga Capital var byggt á hugmyndum sem forsvarsmenn SPRON lögðu á borð ráðuneytisins í upphafi árs 2009. Tillögur SPRON voru reyndar byggðar á grunni samkomulags við kröfuhafa um endurfjármögnun bankans auk þess sem fyrir lá samkomulag um niðurfærslu hlutafjár og aðkomu ríkisins að endurskipulagningu sjóðsins. Þessi tillögum hafnaði fjármálaráðuneytið og hrakti þar með SPRON í gjaldþrot. Ráðuneytið sneri sér síðan við og endurnýtti þessar hugmyndir í þágu VBS og Saga Capital, að vísu án samninga um endurfjármögnun, án samkomulags um niðurfærslu hlutafjár og án aðkomu ríkisins að endurskipulagningunni.

VBS og Saga Capital (Forseti hringir.) fengu sem sagt fyrirgreiðsluna en sluppu við skuldbindingarnar.