138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

afnám verðtryggingar.

[11:03]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég þakka svo sem hæstv. fjármálaráðherra svarið sem var kannski ekki svar við þeim spurningum sem ég lagði fram. En í ljósi þess að frá því að lögum um Seðlabankann var breytt þarsíðast, hefur peningamálastefna bankans aldrei náð markmiðum sínum um lága verðbólgu. Sú stefna er greinilega gjaldþrota þannig að það er ekki útlit fyrir að hér verði breyting á. Þess vegna spurði ég í síðari spurningu minni: Hefur undirbúningur hafist í fjármálaráðuneytinu fyrir afnám verðtryggingar? Það þarf náttúrlega að koma til breyting á peningamálastefnu Seðlabankans samhliða því. Það er rétt að það verði ljóst að verðtryggingin býður lánveitendum upp á bæði belti og axlabönd, þess vegna munu lánveitendur aldrei bjóða hagstæð óverðtryggð lán á meðan þeir geta samtímis boðið verðtryggð lán. Það liggur bara í hlutarins eðli að menn eru í slíkum bisness til þess að hagnast og þeir tryggja sig betur með verðtryggðum lánum.

Hér er margvísleg flækja á borðinu sem þarf að leysa úr og það er ekki seinna vænna en að fara að byrja á því. Því óska ég svara frá hæstv. fjármálaráðherra um hvort (Forseti hringir.) undirbúningur sé hafinn að vinnu í þessa veru í ráðuneytinu.