138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

afnám verðtryggingar.

[11:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Já, þessi mál eru heilmikið til skoðunar og í samskiptum Seðlabanka og fjármálaráðuneytisins hefur þau borið á góma. Þau hafa verið til skoðunar í sambandi við skuldastýringarstefnumótun á vegum ríkisins sem nú er viðamikið verkefni, því miður, og verður á næstu árum að halda eins vel og hægt er utan um og stýra skuldum ríkisins, dreifa greiðslubyrði, lágmarka vaxtakostnað og annað í þeim dúr. Þessi mál koma því eðlilega inn í myndina og geta komið til skoðunar spurningar um útgáfu skuldabréfaflokka og annað í þeim dúr sem þessu tengist.

Varðandi verðtrygginguna að öðru leyti er hægt að gera ýmislegt í áföngum, t.d. það sem við höfum nú barist fyrir hér á þingi sumir hverjir, að verðtryggð lán beri ekki breytilega vexti ofan í kaupið. Þó að ekki væri annað gert en að ákveða með einfaldri aðgerð að lán skuli bera fasta hóflega vexti, séu þau verðtryggð, það er strax í áttina.