138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heilsugæsla á Suðurnesjum.

[11:39]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Heilsugæslan er grunnstoð allrar heilbrigðisþjónustu. Þar er forvarnastarfið, ungbarna- og mæðravernd, skimun, sálfélagsleg þjónusta auk hefðbundinnar lækna- og hjúkrunarþjónustu. Góð heilsugæsla getur sparað mikinn kostnað í heilbrigðiskerfinu öllu auk þess að auka almenn lífsgæði íbúa á svæðinu.

Gott aðgengi að vandaðri heilsugæslu eykur líkur á að sjúkdómar greinist á fyrstu stigum meðan þeir eru auðveldari og ódýrari viðureignar og vandað forvarnastarf getur jafnvel komið í veg fyrir sjúkdóma. Heilsugæsla og öll heilbrigðisþjónusta á Suðurnesjum er því miður í vanda. Sá vandi er ekki nýtilkominn en hann er að versna, m.a. vegna þess að þar sem atvinnuástandið er verst eykst álagið á heilsugæsluna.

Á Suðurnesjum hefur verið viðvarandi læknaskortur sem þýðir aukið álag á þá lækna sem þar starfa. Það leiðir til meiri hættu á mistökum og óviðunandi starfsaðstöðu fyrir starfsfólk sem leiðir aftur til þess að erfitt er að manna stöður lækna á Suðurnesjum. Þennan vítahring þarf að rjúfa.

Virðulegi forseti. Hér þarf róttækari aðgerðir og nú þarf að hugsa út fyrir kassann og hugsa í óhefðbundnum og nýjum lausnum. Einn möguleiki sem nefndur hefur verið væri að sveitarfélögin yfirtækju þessa þjónustu eins og þau hafa lýst áhuga á og hefðu sjálfræði í þessari nærþjónustu við íbúana. Ég tel að skoða beri þann möguleika alvarlega til þess að reyna að rjúfa vítahringinn og ég vona að allir hlutaðkomandi aðilar beri gæfu til að taka höndum saman og leysa málin í bróðerni og með róttæka skynsemi að leiðarljósi.