138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heilsugæsla á Suðurnesjum.

[11:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að víkja í upphafi að skurðstofuþjónustunni á Suðurnesjum. Þar hafa verið tvær skurðstofur, önnur hefur verið nýtt og nýting hennar hefur verið 44%, það var á árinu 2008. Þetta eru ekki einu skurðstofurnar á landinu sem eru vannýttar. Ég hef fengið yfirlit yfir það og það er ljóst að það er mikið offramboð á skurðstofum á landinu, það eru að jafnaði allt að sjö skurðstofur tómar eða ónýttar á hverjum tíma. Í ljósi þessa hafa menn reynt að hagræða í rekstri þeirra þar sem sólarhringsvaktir hafa verið en álag hefur verið lítið, og vísað á skurðstofur stærri sjúkrahúsa en breyta síðan úr sólarhringsvöktum yfir í dagvakt.

Þetta er það sem verið að gera á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og það er líka til athugunar á Suðurnesjum vegna tilmæla heilbrigðisráðuneytisins. Kostnaður á Suðurlandi mun vera um 24–25 millj. kr. á ári.

Varðandi útleigu á skurðstofum vil ég segja að þetta er auðvitað spurning um hversu miklar leigutekjurnar þurfa að vera til að standa undir þeirri starfsemi sem hv. þingmaður nefndi, skurðstofurekstri eða öðru. Þetta er líka spurning um hvort nýting skurðstofanna fyrir aðra en íbúa svæðisins teppi legurými sem eru vel nýtt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Ég vek athygli á að 30 manns eru á biðlista fyrir hjúkrunarrými á svæðinu, þar af tíu í brýnni þörf.

Það er ekki skortur á skurðstofum fyrir þau verkefni sem þarf að inna af hendi fyrir íslenska sjúklinga og ég er auðvitað meðvituð um vilja margra til að flytja inn erlenda sjúklinga. Ég minni á að við erum að þjónusta nágranna okkar í Færeyjum og á Grænlandi og við erum að leita eftir verkefnum í Noregi. Ég hef sett niður nefnd til að skoða þessi mál sem kölluð eru lækningatengd ferðaþjónusta. (Forseti hringir.) Er henni m.a. falið að leggja mat á möguleika íslenska heilbrigðiskerfisins til að sinna erlendum sjúklingum á komandi árum (Forseti hringir.) og kanna fýsileika þessara verkefna og áhrif þeirra, m.a. á menntun heilbrigðisstarfsmanna. Ég minni á að það losnar mikið húsnæði þegar Landspítalinn flytur í nýbyggingu við Hringbraut.

Frú forseti. Það er eins og ég spáði, tíminn er fljótur að líða. Þrátt fyrir að tími minn sé búinn (Forseti hringir.) þakka ég og fagna þeim samhljómi sem er í salnum um stuðning við heilsugæsluna, ég tala nú ekki um tilvísanakerfið.