138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heillaóskir til litháísku þjóðarinnar.

431. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Litháíska þjóðin fagnar í næstu viku þeim merku tímamótum að 20 ár verða liðin frá því að sjálfstæðisyfirlýsing Litháens var samþykkt. Það var mikil gerjun í stjórnmálasögu Evrópu og umbrotatímar þegar þjóðir sem um áratugaskeið höfðu lotið erlendu valdi brutust undan oki harðstjórnar og einræðis. Til þess þurfti kjark og hugrekki og staðfasta trú á giftu og á framtíð í sjálfstæðu landi.

Litháíska þjóðin sýndi þann styrk og frumkvæði er varð hvatning öðrum sem fylgdu í kjölfarið og endurheimtu frelsi og sjálfstæði. Heimsbyggðin öll fylgdist með framvindu mála með aðdáun og djúpri virðingu fyrir sjálfstæðisbaráttu Litháa og síðar einnig annarra þjóða sem fetuðu sömu braut.

Harðfylgi og hugrekki litháísku þjóðarinnar snart okkur öll djúpt og fyrir hugskotssjónum Íslendinga stóð ljóslifandi okkar eigin sjálfstæðisbarátta, íslenska lýðveldið var jú aðeins tæpra 50 ára. Íslendingar sýndu í verki stuðning við sjálfstæðisyfirlýsingu Litháens og voru þar í fararbroddi, eins og við öll þekkjum. Stuðningur Íslands skiptir Litháen og aðrar Eystrasaltsþjóðir miklu máli og við finnum fyrir einlægum velvilja í okkar garð hvarvetna sem við förum og hittum íbúa þessara landa. Vinátta þjóðanna er sönn og djúpstæð og samstarf þeirra hefur þróast og aukist með árunum á hverjum sviðinu á fætur öðru. Þau bönd þarf að rækta og treysta, á sviði menningar og mennta, viðskipta og efnahagsmála, ferðaþjónustu, stjórnmála og almennt í fjölþjóðlegu samstarfi. Sérstaklega fögnum við því hversu traustum fótum samvinna Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna stendur.

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða er dýrmætur en um leið vandmeðfarinn eins og dæmin sanna og oft reynist það einkum stórþjóðunum erfitt að vera sjálfum sér samkvæmar þegar að honum kemur. Þá vilja gjarnan aðrir hagsmunir ráða afstöðu, ekki síst efnahagslegir og hernaðarlegir. En fyrir þjóð eins og okkur Íslendinga á ekki að vera erfitt að fylgja sannfæringu okkar um rétt þjóða til að ráða málum sínum sjálfar eins og við gerðum þegar lýðveldið var stofnað á Þingvöllum árið 1944 og þegar við einarðlega studdum sjálfstæðisyfirlýsingar Eystrasaltsríkjanna. Því skelegga merki eigum við að halda hátt á lofti og sýna undirokuðum þjóðum samstöðu og stuðning.

Litháar fagna 20 sjálfstæðisafmæli sínu í næstu viku. Þeirra tímamóta verður minnst þar í landi og hefur forseti Alþingis m.a. fengið boð um að heiðra litháísku þjóðina við þau tímamót. Í síðustu viku átti ég þess kost að funda með formanni utanríkismálanefndar litháíska þingsins og þar bar sjálfstæðisafmælið eðlilega á góma sem og áralanga vináttu þjóðanna. Á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í gær var rætt um þessi merku tímamót í sögu Litháens og var þar samþykkt einróma að nefndin legði til við Alþingi að samþykkt yrði sérstök ályktun um heillaóskir til litháísku þjóðarinnar í tilefni 20 ára afmælis sjálfstæðisyfirlýsingar hennar. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka meðnefndarmönnum mínum í utanríkismálanefnd fyrir góðar undirtektir og stuðning við málið. Tillagan sem nefndin leggur til að Alþingi samþykki hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að senda heillaóskir til litháísku þjóðarinnar í tilefni af því að 20 ár eru liðin frá því að sjálfstæðisyfirlýsing Litháens var samþykkt af þjóðþingi landsins 11. mars 1990. Sjálfstæðisyfirlýsingin bar vott um hugrekki litháísku þjóðarinnar og markaði tímamót í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna.

Alþingi fagnar þeirri vináttu sem ríkir milli Íslands og Litháens og góðu samstarfi þjóðanna á umliðnum árum og vísar til fyrri ályktana sinna, þ.e. frá 12. mars 1990 um heillaóskir til litháísku þjóðarinnar í tilefni sjálfstæðisyfirlýsingar hennar, frá 19. desember 1990 um stuðning við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, frá 14. janúar 1991 um fordæmingu á ofbeldisaðgerðum sovésks herliðs í Litháen og frá 11. febrúar 1991 um málefni Litháens, þar sem kveðið var á um að Ísland tæki upp stjórnmálasamband við Litháen.

Alþingi ítrekar heillaóskir til litháísku þjóðarinnar og væntir þess að vinabönd þjóðanna eflist hér eftir sem hingað til.“

Frú forseti. Ég er sannfærður um að allur þingheimur vill votta litháísku þjóðinni virðingu sína og sýna henni vinarhug með því að samþykkja þá tillögu sem hér er til umræðu og íslenska þjóðin öll sendir Litháum hlýjar kveðjur og góðar óskir. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umræðu. Ég tel ekki tilefni til þess að vísa henni til nefndar enda eru allir fulltrúa í utanríkismálanefnd sammála um flutning tillögunnar.