138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heillaóskir til litháísku þjóðarinnar.

431. mál
[12:01]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er mér sönn ánægja að vera meðflutningsmaður og styðja tillöguna sem hér hefur verið mælt fyrir af öllum hv. þingmönnum í utanríkismálanefnd Alþingis. Oft er talað um sérstök og góð samskipti og samband á milli þjóðríkja. Stundum á það við, stundum ekki. Ég tel það eiga einstaklega vel við þegar við ræðum samskipti Íslands og Litháens. Því sé okkur bæði ljúft og skylt að álykta með þessum hætti og koma þeim skilaboðum til þingsins í Litháen og forustumanna þar, eins og ég er viss um að hið háa Alþingi mun gera.

Ég vildi líka segja af þessu tilefni að ég tel að oftar mætti álykta um málefni í öðrum löndum og/eða senda skilaboð með þessum hætti til ríkisstjórna annars staðar um aðskiljanleg málefni, af því að það er einu sinni þannig að við erum í nánum samskiptum við ríki um allan heim og við eigum sem ríki lýðræðis og mannréttinda að hafa skoðanir á því hvernig lýðræði og mannréttindum er framfylgt í öðrum ríkjum og koma þeim skilaboðum á framfæri á alþjóðlegum vettvangi og í samskiptum, tvíhliða samskiptum ríkja. Það getur auðvitað ekki verið þannig, frú forseti, að Alþingi álykti holt og bolt og um hvaðeina, en stundum blasa við tilefni sem okkur ber að nýta. Ég vil hvetja okkur, fulltrúa í hv. utanríkismálanefnd, að hafa þetta betur í huga í störfum okkar á þessu kjörtímabili og láta rödd okkar hljóma á alþjóðavettvangi, sérstaklega í baráttunni fyrir virðingu, mannréttindum, lýðræðisumbótum og kvenfrelsi um allan heim.