138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

endurskoðendur.

227. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað upp til að þakka, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir þessa ábendingu sem ég er jafnframt mjög sammála, um það að skoða þurfi hlut endurskoðenda í hruninu. Síðan að aðlaga eða breyta löggjöfinni til að herða eftirlitsskyldu þessa faghóps þannig að þeir geti ekki aftur gert þau mistök sem leiddu m.a. til hrunsins.

Ég furða mig t.d. á því hvernig endurskoðendur gátu skrifað undir efnahagsreikninga eignarhaldsfyrirtækja og fjárfestingarfélaga þar sem greidd hafði verið inn arðgreiðsla vegna skuldsettrar yfirtöku á rektrarfélagi, arðgreiðslur sem síðan hurfu út úr þessum félögum og eftir standa bara skuldir eða lán sem eignarhaldsfélögin og fjárfestingarfélögin tóku til að kaupa rekstrarfélögin. Ég vona að rannsóknarnefndin hafi á einhvern hátt skoðað slíka tilfærslu á fjármagni frá bankakerfinu í gegnum kaup á rekstrarfyrirtækjum til eignarhaldsfélaga og fjárfestingarfélaga og síðan inn á einhverja leynireikninga, bæði hér á landi og erlendis, og að sú skoðun hjálpi okkur við að koma í veg fyrir að þetta geti gerst aftur.