138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[12:25]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu spurningu. Já, ég lít svo á að hugmyndin með þessari tillögu sé að leggja heildstætt mat á kosti og galla og þá möguleika sem fyrir hendi eru í gjaldmiðilsmálum Íslands til frambúðar. Þá erum við ekki einungis að tala um hvaða áhrif krónan hefur núna í kreppunni, ég held að mjög margir séu sammála um að einmitt núna hjálpi hún okkur, en einnig yrði athugað hver hennar hlutur var í undanfara hrunsins og það borið saman við önnur svæði. Til framtíðar litið þurfum við náttúrlega að meta þetta bæði í kreppu, fyrir hrun og eftir hrun. Hugmyndin er að gera sem víðtækasta og heildstæðasta úttekt í þessum efnum þannig að fólk hafi samanburð til þess að velja og hafna til framtíðar litið. Þetta á því ekki bara við um það ástand sem núna er þótt vissulega sé líka mikilvægt að halda því til haga hvaða hlutverki krónan gegnir núna í því hvernig við vinnum okkur út úr kreppunni.

Hér er að mörgu að huga. Ýmsir halda því fram að krónan sé ekki aðalsökudólgurinn í hruninu, það eru mismunandi skoðanir um þetta. Aðrir benda á að evrusvæðið kunni að vera í uppnámi, jafnvel til frambúðar, það á allt að koma inn í þessa úttekt. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er stórt og mikilvægt mál sem þarf að taka ákvörðun um til frambúðar. Þetta á að vera liður í því að staðreyndir, samanburður og ítarleg úttekt frá fjölbreyttu sjónarhorni liggi fyrir til þess að hjálpa okkur að taka þessa ákvörðun.