138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[12:27]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar svar. Við erum að ég held sammála um nálgunina og ég fagna því.

Mín skoðun hefur um langan tíma verið sú að besta leiðin okkar í gjaldmiðilsmálum sé upptaka evru og ég hef þá trú að þessi könnun, verði hún að veruleika, muni leiða það í ljós að það er hyggilegast fyrir okkur. Stærstur hluti okkar utanríkisviðskipta er við evrusvæðið. Hver framtíð evrusvæðisins er, er svo allt annað mál enda ganga lönd þar í gegnum hremmingar eins og fleiri.

En við megum ekki gleyma því, og ég kem hér upp til þess að láta færa það til bókar, að vissulega hjálpar krónan okkur í ákveðnum atvinnugreinum í dag. Það er líka á kostnað allra hinna sem þessar greinar hafa það betra, heimilanna í landinu, allra þeirra sem skulda í landinu, fyrirtækjanna í landinu sem skulda, allra þeirra sem eru að reyna að flytja inn, allra þeirra sem langar að fara til útlanda. Það er á kostnað þeirra sem hluti hagkerfisins hefur það betra í dag.