138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[13:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum nú er mjög alvarlegt og skiptir miklu máli fyrir íslenska þjóð. Ég er þeirrar skoðunar að á meðan við höfum þessi höft hljótum við að eiga að keyra vextina niður miklu hraðar en raun ber vitni. Af hverju segi ég þetta? Ef við ætlum einhvern tímann að lyfta þessum höftum verður það ekki gert nema efnahagslífið sé komið aftur af stað, nema menn séu byrjaðir að fjárfesta, það sé verið að framleiða meira en við notum, við flytjum meira út en við flytjum inn og menn sjái að það sé að myndast öflugt efnahagslíf. Öðruvísi verður höftunum ekki lyft. Til þess að þetta megi ganga fram verða vextirnir að fara niður og þeir verða að fara miklu hraðar niður en raun hefur borið vitni.

Áhyggjur manna af því að gengið gefi eftir ef svo er gert og það komi verðbólguskot — ég tel að sá kostnaður sem af því hlýst sé miklu minni en sá kostnaður sem hlýst af því að hafa vaxtastigið svona hátt við þessar aðstæður þegar heimilin í landinu eru jafnskuldug og raun ber vitni.

Af því að við erum líka að tala um framtíðina og peningamálastefnu Seðlabankans vil ég koma því að að ég er þeirrar skoðunar að dagar sjálfstæðrar peningamálastefnu séu liðnir. Hvað á ég við með því? Það sem ég á við er að Seðlabanki Íslands getur ekki sett vaxtastig sitt eins og honum hentar við þær aðstæður sem við erum búin að opna hér fyrir, frjálst flæði fjármagns. Sú leið sem farin var þar sem vextir á Íslandi voru miklu hærri en í nágrannalöndunum bar feigð í sér. Það þýddi að inn í landið streymdu svokölluð jöklabréf, á ensku kölluð „hot money“, sem gerðu það að verkum að við lentum í miklu óefni. Sama gildir ef við höfum vextina of lága. Ef þeir eru miklu lægri en gerist í löndunum í kringum okkur fara peningarnir út. Þetta verða menn að skilja og mikilvægi þess að við tengjum saman fjármál ríkisins, sveitarfélaganna og Seðlabankans. Núna skiptir öllu máli að taka niður vexti Seðlabankans miklu hraðar, láta það þá ganga yfir okkur (Forseti hringir.) þó að gefi eftir í genginu af því að við verðum að koma aftur af stað fjárfestingu í samfélaginu. Það verður að gerast, herra forseti.