138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[13:48]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Við ræðum peningamálastefnu Seðlabankans og eins og hefur komið í ljós í umræðunni og mikilvægt er að halda til haga er ekki hægt að ræða hana án þess að hafa hana í samhengi við aðra þætti í efnahagslífinu. Stefna Seðlabankans sem fór eingöngu á verðbólgumarkmið fyrir nokkrum árum hefur aldrei gengið upp. Ef ég man rétt hefur Seðlabankinn náð verðbólgunni niður fyrir verðbólgumarkmiðið í 2–3 mánuði á undanförnum áratug en að öðru leyti hefur dæmið ekki virkað. Það eru margvíslegar ástæður fyrir því sem of langt mál væri að fara út í hér, en m.a. var það hávaxtastefna Seðlabankans þegar hann taldi sig berjast við verðbólgu sem leiddi til innflæðis jöklabréfanna og gerði margt hér verra.

Á samhengið við gengi krónunnar hefur verið bent, að gjaldeyrishöftin skipta miklu meira máli en háir vextir. Aukinn vaxtakostnaður er hins vegar bein afleiðing af peningastefnu Seðlabankans og leiðir til mun meiri kostnaðar fyrir fyrirtæki, veldur þeim miklum búsifjum og gerir það að verkum að þau ná ekki að koma undir sig fótum á ný í því efnahagsástandi sem hér ríkir. Háir vextir Seðlabankans gera það m.a. að verkum að ríkisvaldið sjálft þarf að taka lán með mun hærri vöxtum en ella þannig að það er vandséð hvaða tilgangi núverandi peningastefna Seðlabankans þjónar í rauninni. Það er vel ef menn láta verða af því í eitt skipti fyrir öll að reyna að koma hér á einhverjum starfshópi, hverjir svo sem í honum yrðu, sem færi yfir peningastefnu Seðlabankans og hvað í rauninni væri til ráða við þær aðstæður sem ríkja í íslensku samfélagi í dag. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvað framtíðin ber í skauti sér í þessum málum en við vitum a.m.k. að í dag er ástandið óbærilegt og að það verður að vinna bug á því.