138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

peningamálastefna Seðlabankans.

[13:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum peningamálastefnu Seðlabankans. Ég hef margoft bent á það á síðustu árum að hún var mistök. Hún dældi hérna inn fé, hækkaði gengi krónunnar, gerði erlendar vörur mjög ódýrar þannig að neysla landans fór á skrið. Nú sitjum við uppi með þessi jöklabréf sem reyndar heita krónubréf núna og mér finnst Seðlabankinn ekki vinna nægilega skarpt að því að gera samninga við kröfuhafa þessara krónubréfa til að leysa þann vanda. Gjaldeyrishöftin eru einmitt út af þessum krónubréfum, sem Seðlabankinn sjálfur dældi inn í landið á sínum tíma.

Ég held að menn þurfi að skoða mjög nákvæmlega hvort gjaldeyrishöftin virki og hvort ekki geti verið rétt að gjaldeyrishöftin haldi uppi háu gengi á erlendum gjaldeyri. Höft virka einmitt oft öfugt við það sem þau eiga að gera.

Það sem efnahagslífið þarf eru lægri vextir. Það sem einstaklingar þurfa eru lægri vextir og lægri verðbólga. Atvinnulífið þarf líka betra skattkerfi. Svo virðist sem Seðlabankinn og hæstv. ríkisstjórn vinni kerfisbundið og markvisst gegn því að atvinnulífið fari í gang, Seðlabankinn heldur uppi háum vöxtum og ríkisvaldið ræðst á atvinnulífið með því að skattleggja bæði atvinnu og afkomu fyrirtækja í stórauknum mæli.

Sterkt atvinnulíf er eins og hér kom fram forsenda þess að við getum aflétt gjaldeyrishöftunum. Þetta bítur allt hvað í annars skott. Mér finnst mjög miður hvað ríkisstjórnin hefur gert mikið af mistökum á þessu eina ári sem hún hefur verið við völd.