138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[14:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu fyrir að leggjast í þessa vinnu. Farið hefur fram mikil umræða í íslensku samfélagi um gjaldmiðilsmálin á undanförnum missirum og árum. Eftir hrun íslensku bankanna hefur sú umræða magnast til muna og ekki síst í kringum aðildarumsóknina sem fór af stað á vegum ríkisstjórnarflokkanna í fyrrasumar. Umræðan hefur að ýmsu leyti verið á villigötum. Þess vegna er ánægjulegt að hv. þingmenn sem leggja fram þetta mál leitist við að stuðla að upplýstri umræðu og því að einhver botn fáist í hana, að fagmönnum verði falið að meta þessa kosti og bera þá saman til að reyna að koma hér á fót einhvers konar upplýsingum um það hvernig staðan í rauninni er. Framtíðarsýn er það sem íslensk þjóð þarf og þess vegna er brýnt að hér fari fram upplýst umræða. Varðandi gjaldmiðilsmálin er alveg ljóst að hún hefur ekki farið varhluta af upphrópunum og mistúlkunum af ýmsu tagi.

Í tengslum við Evrópusambandsaðildarmálið allt saman var mikil umræða um að hér mundi allt fara að braggast um leið og aðildarbeiðnin yrði send út. Sú reyndist ekki raunin og ekki heldur þær fullyrðingar ýmissa aðila í tengslum við það mál að evran yrði hér orðin að gjaldmiðli nokkrum vikum eða mánuðum eftir að við færum þarna inn. Nú hafa þær raddir og þær staðreyndir haft meiri hljómgrunn í umræðunni að við uppfyllum ekki Maastricht-skilyrðin og getum þar af leiðandi ekki tekið upp evru næstu árin, sumir segja áratugina. Þess vegna er enn mikilvægara að við nýtum tímann vel næstu mánuðina til að mynda okkur skoðun á því í fyrsta lagi hvort þörf sé á að skipta hér um gjaldmiðil, meta hvaða kostir eru þá í boði ef það verður niðurstaðan og kanna í kjölfarið hvaða leið er best.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði að sænska krónan væri best fyrir okkur eins og staðan er í dag. Það var mjög athyglisvert. Staðan er einfaldlega sú, herra forseti, að það er mikil óvissa í efnahagslífi alls heimsins akkúrat þessa stundina. Mín skoðun er að það sé ekki gæfuspor að taka stórar ákvarðanir um framtíð gjaldmiðilsins hér meðan þessi óvissa ríkir um nánast alla gjaldmiðla sem notaðir eru í heiminum í dag. Eins og ég sagði fagna ég hins vegar þessari tillögu og tel rétt að við nýtum tímann til að kanna málið á faglegum forsendum.

Sænska krónan er vissulega ágæt fyrir þá í Svíþjóð, þykir mörgum, en það er einfaldlega ekkert víst að hún verði til á næstu árum. Óvissan er mikil og þess vegna er rétt að flýta sér hægt í þessum efnum.

Herra forseti. Margir hafa orðið til þess að fjalla um íslensku krónuna undanfarin missiri og sumir hverjir á mjög neikvæðan hátt. Það eru skiptar skoðanir um ágæti hennar. Hins vegar er alveg ljóst að það fer ekki saman við hagsmuni íslensku þjóðarinnar að stjórnmálamenn þessa lands nýti tíma sinn til að tala niður gjaldmiðilinn sem við erum með hér í þessu landi, sem við verðum með næstu missirin og næstu árin. Það er einfaldlega ekki í samræmi við íslenska hagsmuni. Þess vegna bið ég þá stjórnmálamenn sem hafa talað á þann veg í þinginu sem og annars staðar að gæta orða sinna. Íslenska krónan er sá gjaldmiðill sem við nýtum hér í dag, íslenska krónan er og verður hér næstu missirin og við þurfum að standa okkur í stykkinu við að reyna að styrkja þennan gjaldmiðil og gera hann þannig úr garði að ráðast frekar í það verkefni að reyna að bæta þennan gjaldmiðil.

Þetta eru einfaldlega staðreyndir málsins og ég taldi rétt í ljósi umræðunnar sem hér hefur skapast í dag að fara í örstuttu máli yfir þessi atriði.

Það er ágætt að fara yfir textann sem fylgir tillögunni, m.a. í greinargerðinni sem er mjög vönduð. Þar er talað um þennan orðróm um að innganga í ESB sé það eina sem gæti hentað íslensku hagkerfi. Þetta er ágætisumfjöllun. Jafnframt eru birtar í fylgiskjali nokkrar greinar þar sem ýmsir aðilar rekja það og skoðanir sínar á því hvaða gjaldmiðill væri best fallinn til upptöku.

Ég minntist á það fyrr í ræðu minni að hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefði bent á sænsku krónuna. Hér kemur fram að Bergþór Konráðsson skrifar í Morgunblaðið í ágúst 2008. Hann spyr: Gæti danska krónan verið svarið? Það er fróðleg spurning.

Jafnframt fjallar Ragnar Þórisson um það í Morgunblaðinu í september 2009 hvort við ættum að taka upp norsku krónuna og það strax. Í grein Ragnars segir, með leyfi forseta:

„Goldman Sachs fjárfestingarbankinn sagði í skýrslu um daginn að þeir teldu norsku krónuna vera sterkasta gjaldmiðil í heiminum í dag, enda er olíusjóðurinn á bak við hana með 360 milljarða dollara.“

Síðan segir jafnframt í greininni:

„Útgerðin mundi t.d. ekki finna eins mikið fyrir hækkun á olíu, þar sem gjaldmiðill okkar mundi hækka í verði með hækkun olíuverðs.“

Þetta eru athyglisverð sjónarmið.

Þórlindur Kjartansson skrifaði í Fréttablaðið 8. apríl 2009 grein þess efnis að taka skyldi upp bandaríkjadal. Í niðurlagi hans greinar kemur fram, með leyfi forseta:

„Upptaka bandaríkjadals á Íslandi gæti lagt grundvöll að endurreisn landsins án þess dragbíts sem haftakrónan er. Dalurinn mundi leysa gjaldeyrisvandamálið strax, en ekki eftir nokkur ár eins og innganga í myntbandalag Evrópu mundi gera.“

Þarna erum við með gerólíkar skoðanir á því hvaða gjaldmiðill það er sem koma skuli og leysa vandamál okkar. Þannig tala Ársæll Valfells og Heiðar Már Guðjónsson í Morgunblaðinu 8. janúar 2009 um að einhliða upptaka evru sé lausn á gjaldeyrisvanda.

Þetta eru vissulega gríðarlega ólík sjónarmið og rétt að halda því til haga að íslenskur almenningur sem hefur fylgst með þessari umræðu er, hvað á maður að segja, eða þeir sem ég hef heyrt í eru mjög efins. Það eru mjög skiptar skoðanir um það hverjum skuli trúa í þessu efni. Þess vegna vil ég enn og aftur hrósa hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu.

Ég fagna þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um þetta mál hérna í dag. Menn hafa verið hófstilltir, flestir hverjir, og telja rétt að við förum yfir þetta mál á yfirvegaðan hátt. Ég vil ítreka það sem ég kom að í máli mínu áðan að krónan er hérna og verður hérna næstu missirin. Við skulum eftir fremsta megni standa vörð um hana. Það er ekki hlutverk íslenskra stjórnmálamanna að tala niður íslenskan gjaldmiðil.