138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[14:14]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að fagna þessari þingsályktunartillögu hv. þingmanna Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Ásmundar Einars Daðasonar um úttekt á helstu framtíðarkostum Íslands í gjaldmiðilsmálum. Ég held að það sé tímabært og þetta sé góður tími núna til að kanna þessa stöðu, annars vegar íslensku krónunnar og hins vegar hvaða aðrir kostir gætu verið á borðinu.

Eins og komið hefur fram í máli margra hv. þingmanna greinir menn á um annars vegar hvort halda eigi krónunni og hins vegar hvaða mynt ætti þá að taka upp. Það sem blasir við er hvaða mynt og að bæði fyrirtæki og heimilin hafa valið aðra mynt en íslensku krónuna. Í dag horfumst við í augu við þann vanda að 70% af lánum fyrirtækja eru í erlendri mynt og 20% af lánum einstaklinga sömuleiðis í erlendri mynt. Í þessu felast í rauninni ákveðin skilaboð og ég túlka þau sem svo að menn hafi með því að sækja erlend lán í stað íslenskra lána á þessu tímabili, á mestu góðæristíð sem við höfum upplifað á Íslandi, verið að hafna annars vegar íslensku krónunni og hins vegar háu vaxtastigi á Íslandi. Það geta náttúrlega verið mismunandi ástæður sem liggja þarna að baki en ég held að önnur hvor þessara ástæðna liggi þarna að baki.

Við horfumst í augu við það jafnframt að vaxtastig er enn þá hátt. Vaxtastigið var hátt þegar uppsveiflan var og vaxtastig er hátt núna þegar kreppir að. Þá hlýtur maður að spyrja sig út í peningamarkmið Seðlabankans sem rædd voru áðan sem í uppsveiflunni beindust beint að verðbólgumarkmiðinu 2,5%, sem ég held að ég geti fullyrt að aldrei hafi náðst með því að hækka vextina stöðugt. Við vitum alveg með hvaða vanda við sitjum uppi í dag vegna þeirrar stefnu sem er náttúrlega sá að við erum með jöklabréf upp á 510 milljarða sem er sjálfskaparvíti, víti sem Seðlabankinn skapaði sjálfur og er ein helsta ástæðan fyrir þeim höftum og vandræðum jafnframt sem krónan er í og hún er í þeim axlaböndum eins og við þekkjum.

Á fundi með peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands fyrr í vikunni kom það fram, sem mér fannst áhugavert, að þjóðhagsspáin væri gerð fyrir peningastefnu Seðlabanka Íslands en ekki fyrir ríkisfjármálin. Í mínum huga gefur augaleið að það vantar talsvert mikið inn í ef ríkisfjármálin eru ekki tekin inn í. Jafnframt kom fram í máli seðlabankastjóra að peningastefnumarkmiðin eru breytt, nú tengjast þau genginu til skamms tíma og verðbólgu til langs tíma. Þetta er mjög áhugavert af því að nú erum við með krónuna í gjaldeyrishöftum og viðskipti með krónuna eru lítil eða nánast engin og maður veltir fyrir sér hverju þessi tenging skilar.

Formaður Samtaka atvinnulífsins hefur sagt, með leyfi forseta, að gjaldeyrishöftin séu eins og skilti uppi á vegg, að stjórnvöld treysti ekki íslensku krónunni og í rauninni segi að hún hafi ekki trúverðugleika. Þetta er mjög alvarlegt mál og ég tek undir þessar áhyggjur formanns Samtaka atvinnulífsins.

Mér finnst ekki hægt að ræða um þetta öðruvísi en að tengja þetta við stöðu krónunnar í dag. Staðan er þannig að við erum í rauninni að njóta góðs af því að útflutningurinn er að skila okkur mun meiri gjaldeyristekjum, lágt gengi krónunnar er augljóslega mjög hagstætt fyrir útflutningsfyrirtæki, sjávarútveginn, álið, ferðamálaiðnaðinn og margt, margt fleira. En á sama tíma megum við ekki gleyma því að þá er náttúrlega orðið mun dýrara að flytja inn alla hluti, við vitum að neysluvörur hafa hækkað um 50%. Þarna takast á tvö mikilvæg sjónarmið, annars vegar það sjónarmið að fá gjaldeyristekjur inn í landið og hins vegar sjónarmið fjölskyldnanna og heimilanna í landinu sem glíma nú við mun hærri afborganir af húsum sínum, kaupmáttarrýrnun og skerðingu og hækkun á neysluvörum. Vandamálið blasir við, það gerir það.

Það lítur ekki út fyrir að þau höft sem við búum við í dag séu neitt að fara. Alla vega kom það fram í máli seðlabankastjóra að það væri tilgangslaust að gera áætlun um afléttingu haftanna. Það þótti mér mjög miður að heyra frá æðsta yfirmanni Seðlabankans — tilgangslaust að gera áætlun. Mér finnst það mjög döpur framtíðarsýn. Hann gerði jafnframt ráð fyrir því að gjaldeyrishöftin mundu ílengjast eins og vera Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem endurskoðunin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefði frestast og enn væru eftir tvær endurskoðanir. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu og líka ef við ræðum bara hvað reynslan hefur sýnt okkur. Reynslan hefur sýnt okkur að fjármálastjórn hins opinbera er megináhrifavaldur og hagstjórnartæki í litlu opnu hagkerfi með eigin gjaldmiðil. Það hefur sýnt sig að vaxtatæki Seðlabankans, sem hann beitir ítrekað og mjög hart, er mjög áhrifalítið og bitlítið og hefur lítið að segja og á meðan blæðir íslensku atvinnulífi, og mér finnst réttlætingin á bak við þetta háa vaxtastig mjög lítil og óskiljanleg, líka fyrir heimilin í landinu. Og svo ég komi líka inn á það sjónarmið sem margir hafa ályktað um og talað fyrir, og kannski sérstaklega fulltrúar atvinnulífsins, og það er að íslenska krónan henti ekki atvinnulífinu einmitt vegna hárra vaxta og sveiflukenndrar verðbólgu. Þeir vilja rekja þessi vandamál beint til gjaldmiðilsins, en í þessu samhengi verður maður líka að benda á hitt sjónarmiðið sem hefur komið fram og verið minnst á og það er að menn hafa bent á kosti þess að búa við sjálfstæðan gjaldmiðil, sérstaklega í árferði eins og við búum við í dag og nefna þá helst sveigjanleikann sem kostinn.

Virðulegi forseti. Ég vona að þingsályktunartillagan nái fram að ganga og kostir og gallar í gjaldmiðilsmálum Íslendinga verði kannaðir ítarlega. Við stöndum á tímamótum og ég tel að þetta sé rétti tímapunkturinn til að endurskoða það kerfi sem við búum við og við hættum að líta á alla hluti sem gefna. Kerfið, umgerðin sem við búum við, er skapað af okkur á Alþingi og það er á okkar valdi að breyta því. Ég tel það vera skyldu okkar, nú þegar við horfumst í augu við framtíðina eftir stórkostlegt efnahagslegt hrun, að við tökum til alvarlegrar skoðunar þá peningamálastefnu sem við búum við. Við verðum að vera óhrædd við að taka ákvarðanir sem leiða til breytinga, ég tel að endurskoðun á á íslensku krónunni sem gjaldmiðli og ítarleg könnun á öðrum kostum í gjaldmiðilsmálum sé mjög viðeigandi á þessum punkti og þá er ég ekki að lýsa neinu vantrausti á íslensku krónuna. Ég held að við verðum að skoða þetta og eina leiðin til að skoða þessa kosti er að taka þetta allt saman og gera þetta með þeim hætti sem lagt er til í þingsályktunartillögunni. Ég held að það muni skila okkur vonandi ítarlegri skýrslu og að við getum svo metið stöðuna út frá því. Það gerum við náttúrlega í samstarfi við atvinnulífið og heimilin og við munum ekki þvinga í gegn neinar breytingar hér sem eru í andstöðu við það sem þjóðfélagið vill. Ég trúi því að það sem verið er að reyna með þeim hugmyndum sem hér eru lagðar fram sé að bæta stöðuna, bæta stöðu atvinnulífsins, bæta stöðu heimilanna, að styrkja stöðu Íslands. Ég vona svo sannarlega að það verði niðurstaða þessarar úttektar og hún nái fram að ganga.