138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[14:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Mér líst ljómandi vel á þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu, ekki hvað síst vegna þess að hún gengur út á það að kanna kosti og galla ólíkra hugmynda í gjaldmiðilsmálum. Vandinn eða gallinn við umræðuna eins og hún hefur verið, hefur að mínu mati verið sá að menn hafa verið búnir að gefa sér að eitthvað eitt væri rétta niðurstaðan og ekki verið tilbúnir til að skoða neina aðra kosti, og til að verja þá niðurstöðu sem þeir voru komnir inn á hafa menn leyft sér að halda fram oft og tíðum hæpnum hlutum. Hér fylgja í greinargerð með þingsályktunartillögunni nokkrar greinar þar sem færð eru rök fyrir ólíkum leiðum. Til að mynda skrifar Ragnar Þórisson um norsku krónuna, einfaldleika þess að taka hana upp sem gjaldmiðil, m.a. vegna þess hversu lík hagkerfi Íslands og Noregs eru. Bæði ríkin eiga mikið undir fiskveiðum en svo er líka bent á að álverð og olíuverð þróist yfirleitt í takt, þannig að sveiflurnar séu svipaðar í löndunum báðum og sameiginlegur gjaldmiðill gæti þar af leiðandi átt við. Svo er hér grein eftir Ársæl Valfells og Heiðar Má Guðjónsson sem lengi hafa talað fyrir einhliða upptöku evru til að koma á stöðguleika. Allt er þetta prýðisvel rökstutt og kjarni málsins er þessi: Það er hægt að færa fram rök fyrir ólíkum leiðum og því mikilvægt að vega þær og meta.

Öll hljótum við að geta verið sammála um ákveðin grundvallaratriði, eða ættum a.m.k. að geta það, og það er að sama hvaða leið er farin á eitt alltaf við og það er að krónan verður að styrkjast fram að því. Ef við skiptum þessum hugsanlegu leiðum í þrennt er það í fyrsta lagi að halda íslensku krónunni óbreyttri, í öðru lagi að taka einhliða upp annan gjaldmiðil, hvort sem að er norsk króna, evra, dollari eða annað, og í þriðja lagi að taka upp evru með aðild að Evrópusambandinu. Í öllum tilvikum á það sama við, við þurfum á því að halda að íslenska krónan styrkist áfram. Ef við til að mynda ætlum að taka upp evru, hvort sem væri einhliða eða með aðild að Evrópusambandinu, og skipta krónunni til að mynda á genginu 200 — það kostaði 200 kr. að kaupa hverja evru sem við værum að taka upp sem gjaldmiðil — værum við að festa í sessi lakari efnahagsstöðu á Íslandi, Ísland væri fátækara ríki fyrir vikið, við ættum minna af evrum. Það ætti þá jafnt við um það sparifé sem fólk á, þá er bara búið að festa það í sessi að fólk ætti tiltölulega lítið sparifé miðað við íbúa í mörgum Evrópulöndum. Sama á við um laun, þá væri búið að festa það í sessi að íslenskur læknir væri hugsanlega á launum sem væru helmingur eða jafnvel þriðjungur af því sem þau eru í evrum talið í útlöndum. Þannig að jafnvel þó að menn hugsi sér að skipta um gjaldmiðil skiptir öllu máli að styrkja gengi krónunnar fram að því.

Þá er mikilvægt að hafa í huga grundvallaratriðin, hvernig verðmæti gjaldmiðils ræðst. Mér hefur oft þótt menn detta aftur í gamla farið, sem var alls ráðandi hér á árabilinu frá aldamótum og fram til 2007, að ræða fyrst og fremst efnahagslega hluti út frá einhvers konar ímynd, mikilvægi þess að tryggja einhverja ímynd eða að kaupa sér ímynd. Þannig er það með gjaldmiðilinn líka, menn hafa talið sig geta styrkt gengi krónunnar með því að bæta einhvern veginn ímyndina út á við og hluti af því var umsókn um að aðild að Evrópusambandinu. Meginrökin fyrir umsókninni á þessum tímapunkti voru þau að það að leggja fram umsóknina mundi eitt og sér bæta einhvern veginn ímyndina og þá mundi gjaldmiðillinn styrkjast. Stærsta dæmið er hins vegar að sjálfsögðu hinn margumræddi Icesave-samningur, að það sé svo mikils virði að kaupa sér einhverja ímynd, kaupa sér velvild einhvers staðar á skrifstofum í útlöndum, að þessu sé til fórnandi vegna þess að ef við gerum það batni ímyndin svo mikið að gjaldmiðillinn styrkist.

Auðvitað er þetta ekki raunin. Raunin er sú að verðmæti gjaldmiðilsins fer alltaf á endanum eftir undirliggjandi verðmætum, eins og við sáum svo rækilega árið 2008 þegar menn höfðu reynt árum saman að halda gengi krónunnar sterku með því að kaupa ímynd, með því að búa til þá mynd að undirliggjandi verðmæti væru miklu meiri en raun bar vitni. Það gat ekki gengið til lengdar. Við eigum að hverfa frá því og fara að hugsa þetta í hinum raunverulegu verðmætum sem að baki gjaldmiðlinum liggja og þá er staða okkar ekki svo slæm ef við hugum að því samhliða þeirri vinnu hvernig við viljum svo hafa þetta til framtíðar. Þetta er að sjálfsögðu hluti af því, það er hluti af þessu að skoða hvernig við gerum þetta best, en þar er að mínu mati grundvallaratriði að spá í þessi undirliggjandi verðmæti og það þarf ekki að vera flókið.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta spurning um útflutning og innflutning. Íslendingar flytja núna út miklu meira en þeir flytja inn, ég held að það sé eitthvað um 20% munur þar á. Ef við einföldum dæmið enn frekar og lítum bara á Ísland sem eitt stórt fjölskyldufyrirtæki erum við að selja fyrir miklu meira en við verjum í það að kaupa aðföng eða reka fyrirtæki. Það er sem sagt hagnaður af Íslandi mánuð eftir mánuð ef litið er fram hjá einum veigamiklum þætti sem er skuldsetningin, þ.e. við erum að selja meira en við kaupum en skuldsetningin er slík að afborganir og vextir af skuldunum gera því miður líklega meira en að éta upp þennan ávinning eða þannig verður það ef við ráðumst ekki gegn skuldavandanum. Þess vegna er það númer eitt, tvö og þrjú í gjaldmiðilsmálunum, sama hvaða leið menn ætla að fara til lengri tíma litið, að ráðast gegn þessari ofurskuldsetningu þjóðarinnar. Þess vegna höfum við talað svo mikið um þetta Icesave-mál allt saman og ekkert er betur til þess fallið að styrkja gengi gjaldmiðilsins en að draga úr skuldsetningunni. Enda sjáum við það að frá því að forseti Íslands synjaði lögum um Icesave staðfestingar hefur gengi íslensku krónunnar, þvert á það sem haldið var fram, styrkst jafnt og þétt og skuldatryggingarálag ríkisins hefur lækkað.

Einu vil ég vara við í lokin, þá komum við aftur að þessari tilhneigingu til að kaupa ímynd fyrir gjaldmiðil, kaupa upp verðmæti til skamms tíma litið, og það er að fara þá leið sem mér heyrist Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabankinn vera dálítið spenntir fyrir, sem er það að eiga hér stóran og mikinn gjaldeyrisvaraforða sem svo verði notaður til að kaupa upp gengi krónunnar, kaupa krónur þegar menn telja að gengið sé að lækka. Þetta er stórhættuleg nálgun vegna þess að það er ekki hægt til lengri tíma litið að halda uppi gengi gjaldmiðils með slíkum hætti, ekkert frekar en fyrirtæki getur ekki til langs tíma litið haldið uppi verðmæti eigin hlutabréfa með því að taka lán og nota peningana til að kaupa bréf í sjálfum sér. Í rauninni er verið að gera það sama. Mörg ríki hafa farið illa út úr þessu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom Jamaíka til aðstoðar á sínum tíma þegar einn jamaíkadollari var álíka verðmætur og einn bandaríkjadalur. Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fór var einn jamaíkadollari tveggja senta virði, þ.e. fyrir tvö bandarísk sent var hægt að kaupa einn jamaíkadollara. Það var nú afraksturinn af þessari stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Jamaíka. Í Argentínu fór þetta á svipaðan hátt, menn reyndu að nota gjaldeyrisvaraforða til að halda uppi gengi gjaldmiðilsins. Ég held að það hafi dugað í 45 mínútur, þá var búið að tæma forðann, erlendir fjárfestar sloppnir með sitt en eftir sat argentínska þjóðin með skuldirnar. Þetta verðum við að forðast hér og þessi þingsályktunartillaga er mikilvægt innlegg í það að menn forðist slíka stórhættulega ákvarðanatöku. Því fagna ég þessari tillögu hv. þingmanna Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Ásmundar Einars Daðasonar og vona að hún fái sem best og hraðast brautargengi hér því að það er mikilvægt að þessi vinna hefjist sem fyrst.