138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

úttekt á gjaldmiðilsmálum.

167. mál
[14:46]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar einfaldlega til að þakka kærlega fyrir þessa góðu og jákvæðu umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur einkennst af góðum ábendingum, athugasemdum og innleggi. Öll erum við sammála um mikilvægi þess að gjaldmiðilsmálin, peningamálastjórn framtíðarinnar sé skoðuð niður í kjölinn og við byggjum ákvarðanir okkar á þekkingu, staðreyndum og skýrum samanburði á þeim möguleikum sem við stöndum frammi fyrir.

Ég ætla ekki að fjalla mikið efnislega um málið, get bara tæpt á nokkrum atriðum, en ég er hjartanlega sammála mörgu því sem hér hefur komið fram. Varðandi peningamálastjórnina tek ég undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni, ég tel að hún hafi verið röng síðustu árin. Það þarf að skoða hana niður í kjölinn og hafa hugrekki og dug til þess að breyta þar af leið. Skuldsetning Íslands, skuldsetning heimila og fyrirtækja er stóra málið í dag og á því þarf að taka.

Ég tek líka undir með hv. þm. Sigmundi Davíð um hversu varasamt það er að fara þá leið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur farið víða, a.m.k. á sumum stöðum, með hörmulegum afleiðingum, að gjaldeyrisvaraforðinn sé notaður til að styrkja gengið. Þar þarf að fara mjög varlega.

Við hljótum öll að vera sammála um mikilvægi þess að vextir fari niður og því að sú mynt — og það gleymist alveg ótrúlega oft í umræðunni — sem samfélag velur sér verður að endurspegla hagkerfi þess, því að eins og ég kom hér inn á í upphafi, standa ýmis ríki Evrópusambandsins frammi fyrir því núna að vera föst í mynt sem er ekki miðuð út frá þeirra forsendum. En þetta eru allt atriði sem verður að ræða í allri þessari umræðu.

Það sem hefur einkennt umræðuna á margan hátt hingað til eru stóryrði og stórkarlalegar yfirlýsingar á einn veg eða annan. Fólk festir sig í einhverju ákveðnu fari, bítur það í sig að við verðum að taka upp evru eða að krónan sé það eina sem blífur o.s.frv. Upp úr þeim hjólförum verðum við að fara og stuðla sameiginlega að vitrænni og fordómalausri umræðu. Þar verður, eins og þessi þingsályktunartillaga gengur út frá, að koma til fjölþætt þekking, fjölbreytt sjónarhorn og samanburður á þeim möguleikum sem í boði eru. Ég tek undir það sem aðrir þingmenn sögðu, við verðum að nálgast þetta með opnum huga. Þar kemur ýmislegt inn, það eru svo mörg markmið, markmið okkar um hvert við viljum stefna, hvað skiptir okkur mestu máli. Er markmiðið stöðugleiki í gengismálum? Er það fullt atvinnustig? Við þurfum að taka tillit til allra þessara þátta þegar við tökum hina endanlegu ákvörðun.

Að lokum þetta: Við viljum nálgast þetta með opnum huga og víðsýni og vera opin fyrir því sem kemur upp úr kafinu. En eitt er víst, og þar tek ég líka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað, að krónan er okkar gjaldmiðill núna og verður í nánustu framtíð, í það minnsta í allra nánustu framtíð. Við það verðum við auðvitað að taka ákvarðanir fyrir samfélagið með hliðsjón af því á næstu missirum. Þessi tillaga er sem sagt innlegg í þær stóru og afdrifaríku ákvarðanir sem við verðum að taka í þessum málum til langrar framtíðar. Ég þakka enn og aftur kærlega fyrir þessi góðu viðbrögð og tel, eins og hér hefur komið fram og ég tek undir, að það sé mikilvægt að þetta fái góða afgreiðslu í nefnd, að þessu sé komið í framkvæmd. Það er mjög brýnt að þessi umræða komist á hærra plan, vil ég leyfa mér að segja. Ég held að við séum öll samtaka í því og viljum að hún geri það til þess að við getum rætt þessi mál af meiri dýpt og yfirvegun.