138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

fæðingar- og foreldraorlof.

163. mál
[14:52]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Ásamt þeirri sem hér stendur eru flutningsmenn þessa frumvarps hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, Eygló Harðardóttir, Atli Gíslason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Ásbjörn Óttarsson.

Í frumvarpi þessu er mælt fyrir um þá breytingu að einstæðar mæður sem eignast barn sem getið er við tæknifrjóvgun og einhleypir sem ættleitt hafa barn skuli öðlast rétt til níu mánaða fæðingarorlofs. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, er kveðið á um rétt foreldra til sjálfstæðs þriggja mánaða fæðingarorlofs og sameiginlegs réttar til annarra þriggja mánaða sem þeir deila á milli sín. Getur barn því notið umönnunar foreldris í allt að níu mánuði samkvæmt lögunum. Í tilfellum þeirra barna hins vegar sem eiga í lagalegum skilningi eitt foreldri njóta þau einungis sex mánaða umönnunar foreldris síns. Með þeirri breytingu sem frumvarpið mælir fyrir um er verið að jafna rétt barna til samvista við foreldri og koma í veg fyrir að börn njóti mismikillar umönnunar eftir fjölskyldugerð.

Í lögum nr. 130/1999, um ættleiðingar, var lögfest sú undantekningarregla að einhleypir einstaklingar gætu ættleitt barn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einnig er vert að geta þess að þeir sem óska eftir að taka barn í varanlegt fóstur þurfa ekki að vera í hjónabandi eða sambúð. Með lögum nr. 54/2008, um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, var einhleypum konum veitt heimild til að gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferð hér á landi. Í sömu lögum var kveðið á um breytingu á barnalögum þess efnis að barn einhleyprar konu sem getið er við tæknifrjóvgun verði ekki feðrað. Hefur löggjafinn með setningu fyrrgreindra laga því viðurkennt einstæða foreldra sem ákveðið fjölskylduform og að barn geti einungis átt eitt foreldri. Það er því grundvallaratriði að löggjafinn tryggi jafnrétti barna óháð fjölskylduformi þeirra og veiti þessum foreldrum rétt til níu mánaða fæðingarorlofs. Í 4. mgr. 8. gr., 2. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er að finna reglu í þessum anda þar sem barni er tryggð umönnun foreldris hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu þess. Má hér sjá að barn sem á jafnframt einungis eitt skilgreint foreldri að lögum nýtur umönnunar þess í níu mánuði. Frumvarp þetta mælir fyrir um jafnræði ungbarna til að njóta samvista við foreldri án tillits til fjölskylduforms. Verði það að lögum er um að ræða mikla réttarbót þeim til handa sem verður að teljast sjálfsögð þar sem löggjafinn hefur þegar viðurkennt að börn geti átt eitt foreldri í lagalegum skilningi.

Herra forseti. Flutningsmenn frumvarpsins eru meðvitaðir um að til eru fleiri tilvik þar sem börn fá einungis notið samvista við annað foreldrið á fyrstu 18 mánuðum lífsins og það jafnvel þótt lagalega séu til staðar tveir foreldrar. Ekki er tekið á slíkum tilvikum í þessu frumvarpi enda eru þau margslungin og flókin og þarfnast ítarlegrar skoðunar við. Því er hins vegar beint til félagsmálanefndar Alþingis að nefndin taki þá hlið mála sérstaklega til skoðunar í framhaldinu. Það þarf að athuga hvernig unnt er að taka á slíkum undantekningartilfellum svo að hvort tveggja í senn séu ætíð tryggðir, óskoraður réttur allra barna til samveru við báða foreldra sína, þ.e. þeirra barna sem lagalega eiga tvo foreldra, sem og réttur allra barna til alls níu mánaða samveru við foreldri á fyrstu 18 mánuðum lífsins.

Ég læt þessari framsögu hér lokið, herra forseti, en mæli með því að málið verði sent áfram til nefndar.