138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

fæðingar- og foreldraorlof.

163. mál
[15:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessu máli með hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og ég fagnaði því mjög þegar þingmaðurinn leitaði til mín um að flytja þetta mál með henni. Eins og kemur fram í lokaorðum greinargerðarinnar er bent á að við erum meðvituð um að til eru fleiri tilvik þar sem börn fá einungis notið samvista við annað foreldrið á fyrstu 18 mánuðum lífsins jafnvel þótt lagalega séu til staðar tveir foreldrar og ekki sé verið að taka á slíkum tilvikum að fullu leyti í þessu frumvarpi. En það er eitthvað sem ég tel að skipti mjög miklu máli. Við teljum að þetta sé hægt að lagfæra og beinum einmitt þeim eindregnu tilmælum til félags- og tryggingamálanefndar Alþingis að hún taki þá hlið mála sérstaklega til athugunar.

Ég var alin upp af einstæðri móður, ég átti ekki mikið samneyti við föður minn fyrstu ár ævi minnar. Ég er því svo innilega sammála þeirri hugsun sem er hér á bak við og fagnaði því mjög þegar þingmaðurinn leitaði til mín og að hún skyldi hafa tekið frumkvæðið að því að leggja fram þessa lagabreytingu. Ég vona svo sannarlega að við getum unnið að því á þinginu að jafna og bæta rétt barna til samvista við foreldra sína og aðra í öllum tegundum af fjölskyldum, að við séum ekki að mismuna börnum eftir því hvers konar fjölskyldu þau fæðast í heldur er þetta spurning um rétt barnanna, ekki bara rétt foreldranna.