138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

288. mál
[15:35]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef margítrekað sagt mér fyndist ástæða til þess að breyta þessu orði „andsvar“ þannig að við ættum þá eitthvað betra svar við þessu vegna þess að ég er að sjálfsögðu ekki að mótmæla því sem hv. þingmaður og meðflutningsmaður minn, Margrét Tryggvadóttir, segir hér.

Hins vegar mundi ég vilja benda á að ef það er þannig að sjóðfélagarnir hafa beina aðkomu að vali á stjórninni verða þeir að sjálfsögðu að axla ábyrgðina á ákvörðunum sem teknar eru. Ef við sjáum þetta þróast frekar, þegar verið er að taka stórar ákvarðanir eins og lífeyrissjóðirnir ræða um núna, að setja um 100 milljarða í atvinnuuppbyggingu hér innan lands, er það tillaga sem er þá borin upp. Það eru þá sjóðfélagar sem taka ákvörðun um hvort þeir eru tilbúnir til þess að taka þessa áhættu með lífeyrisréttindin sem þeir eiga. Ég get ekki tekið undir að við eigum þá peninga sem við borgum þarna inn, heldur eigum við ákveðin réttindi sem við ávinnum okkur. Það er munur á þessu frumvarpi og minni afstöðu og afstöðu t.d. hv. þm. Péturs Blöndals sem hefur líka lagt fram frumvarp um beina kosningu í stjórn sjóðanna.

Ef sjóðfélagar eru sáttir við þessa ráðstöfum axla þeir ábyrgð á því, þeir fara þá með stjórn þessara fjármuna og taka þá líka afleiðingunum. Eins og staðan er núna er þetta ekki beint lýðræði, þeir vita oft ekki einu sinni hverjir það eru sem sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna eða hverjir það eru sem velja þessa einstaklinga eða á hvaða forsendum þeir sitja þarna. Þá er svo auðvelt að segja: Ja, ég hafði ekkert með þetta að gera og ég er mjög ósátt við þetta, ég mótmæli bara. En þegar maður hefur tækifæri til þess að segja já eða nei verður maður að axla ábyrgðina á gjörðum sínum.

Það er nákvæmlega það sem við erum að fara að gera núna um helgina.