138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[16:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni þessarar tillögu, Höskuldi Þórhallssyni, og öðrum flutningsmönnum tillögunnar fyrir það framtak og frumkvæði sem þeir sýna með því að leggja fram þessa tillögu til þingsályktunar sem ber það með sér eða í henni felst að fela utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti að vinna ásamt Háskólanum á Akureyri að undirbúningi árlegrar ráðstefnu þar um málefni heimskautasvæðanna og jafnframt að leita eftir alþjóðlegum stuðningi og samstarfi við þetta verkefni.

Ég vil strax segja það að mér finnst þetta afskaplega áhugavert málefni. Engum blöðum er um það að fletta að málefni norðurslóðanna hafa orðið æ fyrirferðarmeiri í alþjóðlegu samhengi á undanförnum árum. Margt kemur þar til, en fyrir okkur Íslendinga held ég að það sé að horfa á breytingar sem fylgja loftslagsbreytingum, breytingum á aðstæðum á norðurslóðum með því að siglingaleiðir fyrir norðan Rússland opnast, siglingaleiðin á milli Kyrrahafs og Atlantshafs, með því að með bráðnun íss skapast nýir möguleikar til margs konar starfsemi, m.a. auðlindanýtingar á þessu svæði. Bæði það og eins aukin skipaumferð sem hugsanlega er í vændum hefur áhrif á Íslandi og á hafsvæðið í kringum okkur. Við erum þjóð sem byggir mjög mikið á, og má segja að það sé hrygglengjan, burðarásinn í okkar efnahags- og atvinnulífi er sjávarútvegur, það er fiskiauðlindin í hafinu í kringum okkur og viðgangur hennar er þess vegna mjög háður eða getur a.m.k. orðið fyrir áhrifum af hvers konar starfsemi á þessum slóðum.

Ég held þess vegna að það sé einboðið að við hljótum að láta málefni þessa svæðis, heimskautasvæðanna, norðurslóðanna mjög til okkar taka og við höfum í sjálfu sér verið virkir þátttakendur í hvers konar starfi á þessu sviði. Það voru því mikil vonbrigði, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson gat um, að Íslandi skyldi ekki boðin þátttaka á ráðstefnu í Kanada nýverið tengt þessu viðfangsefni og því var eðlilega komið á framfæri athugasemdum af okkar hálfu við það. Eins og kunnugt er er Ísland í raun eina landið sem er í heild sinni staðsett á heimskautasvæði og bæði lega þess og hagsmunir eru þess vegna mjög ríkir í tengslum við norðurslóðaverkefni.

Ég hef reynt að fylgjast með þessum málefnum norðurslóðanna eftir því sem ég hef haft tækifæri til. Meðal annars hef ég verið að skoða öryggi á siglingaleiðum í og við Ísland og norður af Íslandi og flutt þingmál þar að lútandi. Ég tel að það séu miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur að það sé vel staðið að málum með tilliti til þeirrar auknu starfsemi sem vel gæti orðið á ýmsum sviðum á norðurslóðum. Ég tel að árleg ráðstefna um þetta efni geti aukið skilning, þekkingu og umræðu um þessi mál og sé þess vegna góðra gjalda verð og raunar brýnt framlag í þessu efni.

Ég held reyndar líka að við ættum að huga að því í umræðum um þetta mál — það er sjálfsagt að ræða það á vettvangi utanríkismálanefndar og þingsins í framhaldinu — hvort við gætum með einhverju móti styrkt starfsemi okkar á Akureyri sem tengist rannsóknum og öðru varðandi heimskautasvæðin. Háskólinn á Akureyri er auðvitað ein af lykilstofnunum í þessu efni. Á Akureyri er líka staðsett Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Við búum að sjálfsögðu, Íslendingar, yfir mikilli þekkingu bæði vísindalegri en líka stjórnmálalegri á þessu sviði og ég tel að það sé vel skoðandi að reyna að efla þá starfsemi sem bæði Háskólinn á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sinna í þessu efni. Hugsanlega mætti reyna að fá fleiri aðila til liðs við þá starfsemi, þannig að sú stofnun eða þær stofnanir sem fjalla um þessi mál gætu orðið fjölþjóðlegar og við gætum dregið til okkar fleiri ríki, vísindamenn og rannsóknaraðila sem vilja sinna þessum málum með staðsetningu á Akureyri og eflt þar af leiðandi það mikilvæga starf enn frekar en nú er. Ég tel að það sé enn fremur eitthvað sem við ættum að taka til umfjöllunar, við getum gert það í utanríkismálanefnd eða í síðari umræðu og reynt að fylgja því hugsanlega eftir ef mönnum sýnist að það séu forsendur til slíks.

Við höfum verið að ræða það í þinginu, t.d. á síðasta þingi voru tillögur m.a. um smáríkjastofnun Sameinuðu þjóðanna og sérstakar rannsóknarstofnanir á sviði utanríkis- og öryggismála. Það má vel hugsa sér að tengja þessi mál með einhverjum hætti, því að ef við horfum á utanríkis- og öryggismálin er svæðið í kringum okkur allt meira og minna á heimskautasvæði. Það er því ekkert óeðlilegt að menn velti fyrir sér hvort það geti tengst rannsóknum í þá veru eða á því sviði sem þessi þingsályktunartillaga fjallar um þannig að hér gæti orðið mjög öflug miðstöð á Norðurlandi, á Akureyri, öflug miðstöð rannsókna á öllum þáttum þessa máls og þá er ég að hugsa um að draga jafnvel inn í þetta víðfeðmari málaflokka, ef reynist vera grundvöllur fyrir slíku og talið er hagkvæmt.

Í öllu falli er ég ánægður með þessa þingsályktunartillögu og mun gera mitt til þess að hún fái vandaða og góða umfjöllun á vettvangi utanríkismálanefndar. Vonandi getum við síðan sameinast um að afgreiða hana þaðan út, ef afstaða manna þar og umsagnir og annað slíkt gefa tilefni til þess að hún fái hér brautargengi og verði ályktun Alþingis.