138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[16:08]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar, Árna Þór Sigurðssyni, fyrir ræðu hans. Það er ánægjulegt að finna að þingsályktunartillagan nýtur stuðnings þingmannsins en hann er í ágætri stöðu einmitt til að hafa áhrif á það að hún komist í gegnum þingið.

Ég vil taka fram að það ríkir breið samstaða um málið á Alþingi, til að mynda eru ásamt mér á þessari þingsályktunartillögu þingmenn úr öllum flokkum í Norðausturkjördæmi, en þetta mál heyrir að sjálfsögðu líka til alls landsins í heild. Það er nefnilega alveg rétt sem kom fram hjá formanni utanríkismálanefndar að það skiptir öllu máli að við séum í fararbroddi í stefnumótun á einmitt norðurheimskautssvæðunum. Augu umheimsins beinast í sífellt meiri mæli að þessu svæði, ekki bara siglingaleiðum heldur líka öllum þeim auðlindum sem hér eru, matnum, orkunni, og ekki bara á Íslandi heldur Grænlandi og víðar, svo ekki sé talað um það að þegar hægt verður að sigla norður fyrir Rússland styttist siglingaleiðin frá Asíu til mikilla muna. Ísland getur einmitt verið miðstöð uppskipunarhafna í því tilviki og þá er ágætt að vera búin að undirbúa jarðveginn og vera svolítið leiðandi í starfinu sem snertir þessi svæði.

Mér finnst einnig, og ég vil taka undir þau orð, að það megi í kjölfarið og eigi að reyna að styrkja starfsemina á Akureyri tengt þessu, byggja upp miðstöð varðandi norðurheimskautssvæðin. Það er kannski næsta skref og kannski ekki úr vegi að fara að tala fyrir því strax að hún verði staðsett á Akureyri í tengslum við Háskólann á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Ég held að allir séu sammála um það að ef við getum dregið til okkar sérfræðinga og farið að ræða víðfeðmari málaflokka komi það til með að styrkja stöðu Íslands sem þjóðar á meðal þjóða.

Að lokum vil ég segja að umræðan hefur verið ágæt að mínu mati hjá öllum þeim sem tekið hafa þátt í henni. Ég er bjartsýnn á að þingsályktunartillagan nái fram að ganga og hún fái málefnalega umræðu á Alþingi og ekki síst í utanríkismálanefnd.