138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

Seðlabanki Íslands og samvinnufélög.

345. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér er mælt fyrir breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, og lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, með síðari breytingum. Ásamt þeim sem hér stendur eru nokkrir aðrir þingmenn flutningsaðilar að þessu frumvarpi. Ástæða þess að það er lagt fram núna er að í ljósi þess fjármálastorms sem hefur geisað hér á landi og í heiminum verða menn sífellt meira vakandi yfir því hvar þarf að laga hluti og betrumbæta, gæta jafnræðis og tryggja stöðu þeirra sem leggja inn fé í banka svo dæmi sé tekið.

Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, sem hljóðar svo:

„1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá innlánsstofnunum en til þeirra teljast viðskiptabankar, sparisjóðir, útibú erlendra innlánsstofnana og aðrar stofnanir og félög sem heimilt er lögum samkvæmt að starfrækja innlánsdeildir eða taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.“

Staðan er þannig í dag að Seðlabankinn telur sig ekki geta tekið við fjármunum frá innlánsdeildum, t.d. innlánsdeildum samvinnufélaga, þar sem það er ekki skýrt kveðið á um það í lögum um samvinnufélög og lögum um Seðlabankann. Í 2. gr. frumvarpsins er því lögð til um leið breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991.

Stutt greinargerð fylgir frumvarpinu og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta var lagt fram á 137. löggjafarþingi og er nú lagt fram að nýju óbreytt. Í því er lagt til að skýrð sé staða stofnana og félaga sem með lögum er heimilað að starfrækja sérstakar innlánsdeildir eða að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Lagt er til að orðalagi 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, verði breytt þannig að vafalaust sé að ákvæðið taki til þessara stofnana og félaga. Í a-lið 2. gr. laga um samvinnufélög, nr. 22/1991, er slíkum félögum heimilt að starfrækja sérstakar innlánsdeildir sem taka mega við innlögnum frá félagsmönnum og viðskiptaaðilum. Lagt er til að felld verði úr lögum sú takmörkun 4. mgr. nefndrar lagagreinar að innlánsdeildin teljist ekki innlánsstofnun í skilningi laga um Seðlabanka Íslands.

Innlánsdeildum“ — í raun hvaða nafni sem þær kunna að nefnast — „er nauðsyn, eins og sparisjóðum og bönkum, að geta átt í innstæðuviðskiptum við Seðlabankann til að tryggja stöðu innstæðueigenda. Hér er því um jafnræðismál að ræða milli þeirra sem hafa heimild til að taka við fjármunum til ávöxtunar frá almenningi og eykur þar með öryggi viðskiptaaðila innlánsdeildar. Innlánsdeildir starfa samkvæmt lögum og lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins og greiða í sérstakan tryggingarsjóð.“

Það er því í rauninni, frú forseti, eingöngu verið að leggja til að þessi tegund af innlánsformi njóti sama öryggis og sama réttar og önnur form og því er þetta mál lagt fram.