138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

tilhögun þingfundar.

[15:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er ekki vandamál af hálfu Sjálfstæðisflokksins að halda hér langa fundi fram á kvöld. Við höfum margkallað eftir því að inn í þingið komi fleiri mál frá ríkisstjórninni sem snúa að stöðu heimilanna, stöðu fyrirtækjanna og þeim lausnum sem eru mögulegar til þess að takast á við þann efnahagsvanda sem nú er uppi.

Það eru mikilvæg mál fram undan í þinginu, frú forseti, sem eru skipulagslög, mannvirki og brunavarnir. Nú háttar vissulega þannig til að fram undan eru nefndadagar í vikunni en þessi þrenn lög, skipulagslög, mannvirki og brunavarnir, hafa komið áður inn í þingið og valdið töluvert miklum deilum. Það er ætlun forseta að reyna að klára þessi mál hér í dag og þá fram á kvöldið ef ekki klárast fyrir klukkan átta til að koma þessum málum áfram til nefndar. Þetta eru mjög stór mál og ég tel, frú forseti, að það hefði verið eðlilegt að við hefðum gefið okkur rýmri tíma í þinginu til að klára þessi mál, þ.e. 1. umr. þeirra, (Forseti hringir.) áður en þau verða send til nefndar vegna þess að því betur sem við vöndum okkur hér í (Forseti hringir.) umræðunni, því fyrr mega þau síðan ganga í gegn, þ.e. með því að vanda sig strax í upphafi verður ferlið styttra þegar upp er staðið. Það er betra að ná fram sátt í þinginu ef menn bara gefa sér tíma til þess.