138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

staðan að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er ástæða til að óska íslenskri þjóð innilega til hamingju með glæsilega þjóðaratkvæðagreiðslu sem átti sér stað á laugardaginn. Í raun og veru var íslenska þjóðin sigurvegari kosninganna, kosninga sem hæstv. forsætisráðherra neitaði að taka þátt í og sem hv. fjármálaráðherra neitaði að taka þátt í. Þannig reyndu þau óbeint að hvetja fólk til að sneiða hjá þátttöku sem var glæsileg.

Nú tekur það við að leysa þetta erfiða mál, nokkuð sem við hefðum átt að vera að búin að gera fyrir löngu. Nú tökum við þetta mál þvert á flokka líkt og við framsóknarmenn höfum lagt til í á annað ár, að við vinnum saman að þessu máli. Ég tók eftir því að hæstv. utanríkisráðherra nefndi það sérstaklega áðan, sem er rétt, að stjórnarandstaðan hefði átt frumkvæði að samvinnu í þessu stóra máli. Við skulum halda áfram í þeirri vegferð. Á sama tíma heldur hæstv. forsætisráðherra öðru fram og talar um að stjórnarandstaðan vilji enga samvinnu. Jú, stjórnarandstaðan ætlar að koma fram af ábyrgð í þessu máli eins og við höfum talað fyrir í á annað ár, en ríkisstjórnin hefur því miður þverskallast við og dýrmætur tími farið í súginn þess vegna.

Ég vil líka úr ræðupúlti Alþingis þakka forseta lýðveldisins fyrir sköruglega framgöngu í málinu. Hann hefur verið sameiningartákn þjóðarinnar í þessu máli og staðið sig að mörgu leyti mun betur í málflutningi fyrir hönd þjóðarinnar en sjálfur forsætisráðherra landsins. Á hann þakkir skildar fyrir það.

Við stöndum á krossgötum í dag. Nú þurfum við að endurmeta stöðuna. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir breyttum vinnubrögðum á vettvangi þingsins. Við studdum minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar án þess að óska eftir því að koma inn í þá stjórn. Við höfum talað fyrir samvinnu og samstöðu allt frá þeim tíma. Ég ber þá von í brjósti að þeir tímar séu að ganga í garð.

Fram undan er jafnvel erfiðasta fjárlagagerð í sögu lýðveldisins fyrir árin 2011 og 2012. Ef einhvern tímann hefur verið ástæða til að allir taki höndum saman við þá erfiðu tíma sem fram undan eru er það nú. Ég vona að það sé ekki holur hljómur í ræðu hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. forsætisráðherra þegar þau tala um aukna samvinnu og samstöðu á vettvangi þingsins. En við skulum hafa í huga að þessir ágætu ráðamenn ráða vinnubrögðum á vettvangi þingsins og ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni, ríkisstjórnin verður að fara að endurskoða það verklag sem hún hefur viðhaft á þingi á undangengnum vikum og mánuðum. Nú er tími samstöðu. (Forseti hringir.) Nú eru nýir tímar vonandi runnir upp. Við framsóknarmenn erum tilbúnir í þá vegferð að vinna að erfiðum úrlausnarverkefnum með ríkisstjórninni. Við höfum boðist til þess í langan tíma og gerum það áfram.