138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

staðan að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem er athyglisvert við þá umræðu sem hér hefur farið fram er að mínu viti það að þótt ekki hafi allir í stjórnarandstöðunni talað fyrir því að flokkarnir ættu áfram að vinna saman að lausn þessa máls tók ég eftir að enginn talaði gegn því að við ættum að halda samstöðunni áfram og reyna að leysa þetta mál. Ég lít því svo á að allir flokkarnir vilji halda áfram að vinna að lausn málsins. Ég hef fulla trú á því að við getum náð lengra í því en við þegar höfum náð. Ávinningurinn af þessu samstarfi er um 70 milljarðar kr. og ég hef fulla trú á að við getum náð lengra.

Þegar verið er að gagnrýna þá sem hér stendur eins og hv. varaformaður Sjálfstæðisflokksins gerði verður hún líka að taka með í reikninginn að 40% kjósenda völdu sama kost og sú sem hér stendur, þ.e. að taka ekki þátt í kosningum. Það er einn valkostur sem fólk hefur (Gripið fram í.) til viðbótar þegar kosningar eru. (Gripið fram í.)

Það er ágætt líka að rifja upp að mjög margir töldu þessa kosningu nokkuð sérkennilega, m.a. einn fréttamaður hjá BBC sem sagði að allir hér á landi viðurkenndu að samningarnir sem ætti að fara að greiða atkvæði um hefðu í rauninni verið settir til hliðar því að betri samningar væru á borðinu. (Gripið fram í.) Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að halda því til haga líka.

Hv. formaður Sjálfstæðisflokksins spyr: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að axla ábyrgð í þessu máli? Ég segi við formann Sjálfstæðisflokksins: Það er ekkert einkamál þessarar ríkisstjórnar hvernig á að leysa þetta mál eða hvort á að leysa það. Ég minni í því sambandi á að hrunið byrjaði ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar, það byrjaði undir forustu íhaldsins, fyrrverandi forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Ábyrgðin (Gripið fram í.) er þannig alveg eins mikið íhaldsins og sjálfstæðismanna um hvernig eigi (Gripið fram í.) að leysa þetta mál. Raunar má segja að þetta hrun hafi byrjað við einkavæðingu bankanna ef því er að skipta. [Háreysti í þingsal.] Það er alveg ljóst að það er á ábyrgð allra flokka að leysa þetta mál og koma því farsællega í höfn. Það er ekki hægt að finna annað að þeirri umræðu sem hér er … já, það er mikill óróleiki í salnum þegar talað er um að aðrir flokkar beri einhverja ábyrgð á þessu máli og því hruni sem við erum að ganga í gegnum og afleiðingum þess. Menn verða að horfast í augu við sannleika þessa máls, (Gripið fram í.) það er hann sem er … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Ég ítreka að ég er ánægð með það að enginn flokka hér inni talaði gegn því að vinna ætti saman að lausn þessa máls. (Gripið fram í: Bendir hver á annan.) (Gripið fram í: … á annað ár.) (Forseti hringir.)