138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

efnahagsaðgerðir.

[15:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu alltaf rétt og skylt að meta aðstæður hverju sinni og hvað hefur orðið til að breyta þeim. Ég held að í grófum dráttum séu vel þekkt þau verkefni sem við okkur blasa og við höfum verið að glíma við. Við vitum hver þau eru, að koma íslensku efnahagslífi og samfélaginu í gegnum og út úr þessum erfiðleikum. Væntanlega hefur engum dottið í hug að það yrði gert með einhverjum einskiptisaðgerðum og þar með væri málið leyst. Þetta er og verður viðvarandi glíma til einhvers tíma fyrir okkur Íslendinga að rétta okkur af, rétta skútuna af og koma henni út úr sjólokunum. Að því þarf að vinna markvisst og á öllum vígstöðvum.

Varðandi hluti eins og að lækka stýrivexti gerist það víst ekki með handafli miðað við núverandi lög og skipan en allir eru sammála um mikilvægi þess að það gerist engu að síður. Þar var í gangi þróun sem var jákvæð og stefndi í rétta átt og er vonandi enn þó að síðasta skrefið í þeim efnum hafi verið lítið og valdið vonbrigðum. Ég held að allir séu sammála um að vextir þurfi hér að lækka, og lækka umtalsvert. Það fé sem safnast fyrir í bankakerfinu þarf að komast í umferð og það er ekki gott fyrirkomulag að fjármunir staflist upp inni í Seðlabankanum á áhyggjulausri ávöxtun þegar þeir væru betur komnir í fjárfestingum eða í umferð.

Úrlausn skuldavanda heimila og atvinnulífs er í gangi, eitt af stærstu og mikilvægustu verkefnum sem unnið er að um þessar mundir. Það er sömuleiðis af þeim toga að það mun ekki leysast með einskiptisaðgerðum, heldur verða einhver glíma næstu missirin, þótt ekki væri annað en að það verkefni er af þvílíku umfangi, t.d. þegar kemur að fyrirtækjunum, að menn munu ekki afkasta því nema á einhverjum tíma.

Vonandi sér sem mest fyrir endann á slíkum hlutum (Forseti hringir.) innan þessa árs þannig að við höfum hreinna borð í þeim efnum þegar líður að áramótum.