138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

tengsl Icesave við endurreisn efnahagslífsins.

[16:04]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Undanfarin missiri hefur klingt í eyrum Íslendinga að lausn Icesave-málsins tefji endurreisnina og að hún muni ekki hefjast af krafti fyrr en nauðasamningarnir við Breta og Hollendinga liggi fyrir undirritaðir. Því langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra:

Hver eru tengslin á milli þess að ekki er hægt að ráðast í skuldavanda heimilanna og Icesave?

Hver eru tengslin á milli þess að ekki er hægt að endurskipuleggja efnahagsreikning fyrirtækjanna og Icesave?

Hver eru tengslin á milli þess að ekki er hægt að ganga frá fjárfestingarsamningum, til að mynda við Verne Holdings og Norðurál, og Icesave-málsins?

Hver eru tengslin á milli Icesave og þess að erlendir fjárfestar eru nær virtir að vettugi?

Hver eru tengslin á milli þess að ríkisstjórnin stendur ekki við stöðugleikasáttmálann og Icesave?

Hver eru tengslin á milli þess að hæstv. umhverfisráðherra stendur stöðugt í vegi fyrir uppbyggingu og Icesave-málsins?

Hver eru tengslin á milli þess að hægt var að endurskipuleggja bankakerfið og Icesave?

Og að lokum: Hver skyldu vera tengslin milli þess ráðaleysis og doða sem ríkir á Íslandi nú um stundir og þess hverjir sitja í ríkisstjórn? Hver eru þau tengsl?