138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

tengsl Icesave við endurreisn efnahagslífsins.

[16:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hef ég ekki örugglega bara tvær mínútur til að svara þessari ítarlegu fyrirspurn sem hér var borin fram við mig? Ég er hrædd um að ég komist ekki [Háreysti í þingsal.] yfir allar spurningarnar sem hér voru bornar upp.

Hv. þingmaður sem er hagfræðingur ætti að vita sum af þessum svörum og þarf ekki að spyrja um þau. Það eru auðvitað mikil tengsl milli Icesave-málsins og lausnar á ýmsum vanda sem við búum við í atvinnulífinu. Ég kom inn á það áðan að það liggur þegar fyrir að ASÍ hefur sagt að Icesave-málið tefji endurreisnina um hálft ár. Það hefur þegar komið fram, bæði hjá ASÍ og í útreikningum sem hafa verið gerðir, að samdrátturinn mun aukast um 2,5% frá því sem áætlað var, sem eru hvorki meira né minna en 35 milljarðar kr. sem er hátt í það sem við þurfum að fá í niðurskurði og kannski frekari skattahækkunum.

Það er alveg ljóst að það er samhengi á milli Icesave-deilunnar og þess að fá erlent fjármagn inn í landið. Hv. þingmaður veit að það hefur verið fyrirstaðan fyrir mörgum framkvæmdum að fá ekki erlent fjármagn inn í landið.

Hv. þingmaður veit líka að það er samhengi milli þess að leysa Icesave-málið og skuldatryggingarálags. Það er alveg ljóst að þegar (Gripið fram í: … lækka. Það er búið að lækka.) forsetinn vísaði Icesave-málinu til þjóðarinnar hafði það áhrif á skuldatryggingarálagið sem hækkaði. Þó að það lækkaði eitthvað lítillega gæti það hækkað líka. Það er boðað líka hjá Moody's, svo dæmi sé tekið, að þeir ætla að sjá hverju fram vindur í Icesave-málinu um það hvort þeir þurfi að hækka hér skuldatryggingarálagið.

Það er af mörgum málum að taka þegar þetta samhengi er skoðað. Menn verða að horfast í augu við staðreyndirnar í þessu máli. (Forseti hringir.)