138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

tengsl Icesave við endurreisn efnahagslífsins.

[16:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir meint svar.

Það er rétt að uppbygging gjaldeyrisvarasjóðs Seðlabanka hefst ekki af krafti fyrr en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur skilað umsögn sinni og það hangir á Icesave. Í framhaldinu verður hægt að afnema gjaldeyrishöftin, en það hefur ekkert að gera með þau mál sem ég nefndi áðan. Öll málin sem ég taldi upp áðan velta á getu ríkisstjórnarinnar til að ráða fram úr þeim. Ráðaleysið er ekki Icesave að kenna, heldur sundrungu, meðvitundarleysi og vankunnáttu ríkisstjórnarinnar. Kostnaðurinn við að draga að leysa Icesave-málið er vissulega til staðar, en sá kostnaður er smámunir miðað við aðgerðaleysiskostnaðinn sem nú hleðst upp vegna getuleysis ríkisstjórnarinnar til að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ég ætla að einfalda spurningarnar sem ég var með áðan og draga þær saman í eina spurningu: (Forseti hringir.) Hvert er samhengið á milli skuldavanda heimilanna og Icesave?