138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

endurskoðun á samstarfsáætlun við AGS.

[16:12]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu fyrirspurn sem vitaskuld snýst um afar mikilvægt málefni fyrir íslenskt efnahagslíf. Frestun á endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsáætlunarinnar hefur fyrst og fremst þau áhrif að, a.m.k. til skamms tíma, það fjármagn sem hefði fylgt kemur ekki. Það er raunar staða sem við þekkjum því miður vel á eigin skinni því að það gerðist í fyrra. Við því er að búast að jafnframt mundi það hafa þau áhrif að annað erlent fjármagn sem við hefðum getað fengið frá öðrum aðilum á almennum markaði kemur mun ólíklegar fyrir vikið eða ef það kemur kemur það með hærri eða verri vaxtakjörum en ella.

Áhrif þessa eru þá einfaldlega þau að okkur gengur verr að fjármagna íslenska hagkerfið og íslenska ríkið og þurfum að bregðast við því með því að nota minna fjármagn. Þarfirnar eru gríðarlegar, við vitum t.d. að áætlaður uppsafnaður halli á rekstri hins opinbera á fjórum árum er um 500 milljarðar kr. Auk þess þurfum við helst að hafa talsvert fé til hliðar til að leggja í ýmiss konar fjárfestingar, ekki bara orkufrekar fjárfestingar heldur einnig ýmsar smærri.

Síðan stöndum við frammi fyrir mjög erfiðum lánum á gjalddögum, opinberum lánum undir lok næsta árs og í upphafi þess þarnæsta. Einnig eru margvísleg önnur lán sem bæði opinberir aðilar og einkageirinn hafa tekið og þurfa að endurfjármagna. Ef við fáum ekki fjármagn með góðu móti til að endurfjármagna þetta allt saman þurfum við augljóslega að spara mjög það fé sem við höfum þannig að við þyrftum að vera með mun harkalegri niðurskurð (Gripið fram í: Hver er …?) í opinberum rekstri. Við þyrftum að draga mjög úr fjárfestingum og (Gripið fram í: Hver er …?) væntanlega þyrftum við að reyna að afla fjár þótt það væri mjög dýrt frá öllum þeim (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) sem við höfum kost á.