138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[16:20]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mjög skiptar skoðanir eru í þinginu um það mál sem hér er spurt um. Sjávarútvegsnefnd hefur haft þetta mál til meðferðar. Reynt hefur verið að leita sátta í því og a.m.k. tvær tillögur hafa verið settar fram í þeirri viðleitni að ná fram sátt í málinu. Það er alveg sama hvora tillöguna er komið fram með hjá þeim sem er leitað sátta við, þeir neita því alltaf að ná einhverri samstöðu um málið. Ef menn deila þurfa menn að leita sátta og slaka til hver hjá sér til þess að ná niðurstöðu, ég þarf ekki að segja það við hv. þm. Ólöfu Nordal. Tvær tillögur liggja fyrir í þessu efni. Það hefur sem sagt ekki enn náðst sátt í málinu og eftir því sem ég best veit kemur fram í því nefndaráliti sem var skilað inn að ef einhver lausn finnist í því máli sem er til sátta fallin er opið að setjast yfir hana og ræða það mál meðan það er í þinginu.

Það er ekki hægt að segja hér, virðulegi forseti, eins og mér fannst hv. þingmaður reyna að segja að þessi ríkisstjórn sé ekki tilbúin til að leita samstöðu og sátta í málinu. En það þarf tvo til þegar deilt er og Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur ekki sýnt neina sáttaviðleitni í þessu máli með því að koma til móts við þær tillögur sem þegar hafa verið lagðar fram og eru a.m.k. tvær.