138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

tillögur starfshóps um kynbundinn launamun.

[16:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég tek undir árnaðaróskir í sambandi við alþjóðlegan baráttudag kvenna. Kynbundinn launamunur er vissulega einn allra ljótasti bletturinn á samfélagi okkar í þessum efnum að frátöldu kannski kynbundnu ofbeldi og öðru sem því tengist. Það er nú svo með glímuna við þennan kynbundna launamun að það rifjast upp fyrir mér að með 10 ára millibili voru gerðar stórar úttektir á þessu máli og ég tók þátt í umræðum um þær í bæði skiptin á Alþingi. Ætli það hafi ekki verið 1995 og aftur 2005? Þá hafði okkur nákvæmlega ekki miðað spönn frá rassi, við vorum á nákvæmlega sama stað þegar veginn kynbundinn launamunur var skoðaður og það var ákaflega dapurlegt, m.a. vegna þess að þrátt fyrir að dregið hefði nokkuð úr kynbundnum launamun í lok síðustu aldar fór hann vaxandi aftur í bólinu. Skýrar upplýsingar eru til staðar um það.

Það er ástæða til að ætla, og reyndar staðfest, að það hafði dregið nokkuð úr þessum mun aftur. Það gerist m.a. vegna þess að aðhaldsaðgerðir í sambandi við a.m.k. launakostnað hjá hinu opinbera, og jafnvel í fyrirtækjum líka, eru gjarnan látnar beinast að ýmsum fríðindum og óumsömdum greiðslum sem að hluta til skýra hinn kynbundna launamun. Það minnir okkur á að langbesta vörnin við þessu er gagnsæi, félagslegir kjarasamningar þar sem öll launakjör eru uppi á borði. Þá er ekkert hægt að fela mismunun, hvorki kynbundna né aðra.

Við höfum reynt að sinna þessum málum á ýmsan hátt þrátt fyrir ærin verkefni, t.d. með því að innleiða kynjaða hagstjórn og hafa þetta sem skýrt leiðarljós í sambandi við allar aðgerðir innan hins opinbera kerfis. Til dæmis er alveg skýrt tekið fram í leiðarljósum um það hvernig ná eigi sparnaði að það eigi að nota tækifærið og reyna að útrýma kynbundnum launamun.

Varðandi skýrsluna sem hv. þingmaður spyr um skal ég með mestu ánægju draga hana fram (Forseti hringir.) og upplýsa um inntak hennar. Það kemur mér á óvart ef hún hefur ekki verið birt, það er þá ekki seinna vænna að gera það.