138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[16:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að koma hér upp og gera athugasemd við fundarstjórn forseta, sem tilkynnti hér áðan að í tilefni dagsins, alþjóðlegs baráttudags kvenna, ætlaði hún að gera konum hátt undir höfði og koma þeim fyrir í fyrirspurnum til hæstv. ráðherra.

Ég ætla ekkert að halda því fram að hæstv. forseti hafi gert það í því yfirskyni að koma að tveim stjórnarliðum. Hins vegar vil ég gera við þetta athugasemd, (Gripið fram í.) vegna þess að … (Gripið fram í.) Nei, hv. þm. Helgi Hjörvar er stjórnarliði.

Frú forseti. Ég vil gera athugasemd við þetta vegna þess að við í stjórnarandstöðunni höfum fá og stutt tækifæri til að eiga hér orðastað við hæstv. ráðherra. Núna vek ég athygli á því að það eru ekki fleiri slíkir fyrirspurnatímar í þessari viku. (Forseti hringir.) Í næstu viku er einn fyrirspurnatími þar sem þá eru nefndadagar. Ég verð að beina því til hæstv. forseta, ef hún ætlar að fara að breyta reglunum og gera slíkar undantekningar hefði hún frekar átt að láta þingflokkana vita af því fyrir fram. Við konur hefðum getað mannað allar fyrirspurnir hér í dag. Hins vegar voru það ákveðin mál sem (Forseti hringir.) þingflokkurinn forgangsraðaði og raðaði niður á (Forseti hringir.) hv. þingmenn. Ég vil gera athugasemd við að komið sé svona aftan að okkur í fundarstjórn. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Þessi athugasemd er móttekin.)