138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[16:33]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil óska þingheimi til hamingju með daginn, konum sem körlum. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er liður í jafnréttisbaráttu og því ber að fagna.

Ég vil eins og síðasti hv. þingmaður koma inn á spurninguna um hvort við þurfum ekki að breyta því formi sem hér er á fundum, hvort við þurfum ekki með einum eða öðrum hætti að lengja þennan fyrirspurnatíma. Á krítískum augnablikum eins og núna eftir þessa helgi brenna á okkur margar spurningar. Svo er líka sérstakt í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra ákvað hér í lok ræðu sinnar að spyrja mig spurningar sem ég hafði formsins vegna engin tök á að svara. Hún var eitthvað í þá veru hvort við framsóknarmenn vildum ekki semja. Við höfum alla tíð viljað semja og við erum reiðubúnir að koma áfram að samningaviðræðum eins og komið hefur fram. En við (Forseti hringir.) semjum ekki um hvað sem er. Við segjum það sama og (Forseti hringir.) þjóðin: Við sættum okkur ekki við nema hagstæða (Forseti hringir.) samninga fyrir þjóðina.