138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[16:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir þær athugasemdir sem hér voru gerðar varðandi röð þeirra fyrirspurna sem komu hér fram til ráðherra óundirbúið. Ég tel, burt séð frá því hvaða dagur er í dag, sem er mikill ánægju- og gleðidagur, að það eigi ekki að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að þingkonur komist hér að sérstaklega í krafti kynferðis en ekki í krafti spurninga, ekki í krafti þess hvað verið er að leggja fram. Ég held að það séu röng skilaboð. Hér er kannski ekki stórt mál á ferðinni, frú forseti, en það skiptir máli hvernig menn horfa á þessa hluti. Við eigum að horfa á alla þingmenn jafnt, óháð kynferði. (Gripið fram í.) Ef hæstv. forseti vill breyta einhvern veginn röð á mælendaskrá eða hafa einhverjar sérstakar áherslur varðandi fyrirspurnatímann er rétt að hafa samband við þingflokksformenn og ræða það. (Forseti hringir.) Það er alveg augljóst mál í hvað stefnir, það er verið að fjölga þeim skiptum þar sem stjórnarliðar koma upp (Forseti hringir.) og eru með tilbúnar spurningar fyrir ráðherrana sína til þess að þeir geti svarað með tilbúnum hætti.