138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[16:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að allir þingmenn eigi jafnan rétt til þess að bera fram fyrirspurnir til ráðherra, óháð því af hvaða kyni þeir eru og óháð úr hvaða flokki þeir eru. Forseta eru vissulega vandi á höndum þegar margar óskir koma um óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra. Þegar ég tók sæti á Alþingi var það sagt í mínum þingflokki að það væri ákveðin forgangsröðun t.d. að formenn flokka, formenn stjórnarandstöðuflokka eða þingflokksformenn hefðu ákveðinn forgang, að fyrirspurnir til forsætisráðherra eða formanna stjórnarflokka hefðu ákveðinn forgang. Ég veit ekki hvort þessu hefur verið breytt eða hvort þetta var bara óskrifuð regla og hvergi sett formlega niður.

En ég vil mótmæla því að fyrirspurnatímar eigi bara að vera fyrir þingmenn stjórnarandstöðunnar. Þingmenn úr stjórnarflokkunum eiga að sjálfsögðu fullan rétt á að bera fram fyrirspurnir. Ég mótmæli þeim dylgjum frá formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins að slíkar fyrirspurnir séu iðulega tilbúnar fyrir fram og ráðherrar varaðir við. Ég er búinn að bíða hér í tvo fyrirspurnatíma eftir að (Forseti hringir.) komast að með fyrirspurn til ráðherra sem ég ætla ekki að segja hver er vegna þess að hann veit ekki af því. Ég hef alveg sama rétt og þingmenn stjórnarflokkanna til þess að komast að stöku sinnum.