138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

heillaóskir til litháísku þjóðarinnar.

431. mál
[16:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir heillaóskir til litháísku þjóðarinnar í tilefni af 20 ára afmæli sjálfstæðisyfirlýsingar hennar. Ég kem þó hér upp því að rétt eftir að við höfðum sent þingsályktunartillöguna þess efnis til utanríkismálanefndar barst þingmönnum fréttatilkynning frá Amnesty International með gagnrýni á afar umdeild lög um verndun ungmenna gegn skaðlegum opinberum upplýsingum sem litháíska þingið hafði samþykkt í fyrrasumar og tóku gildi þann 1. mars sl.

Forseti Alþingi er nú á leið í heimsókn til litháíska þingsins þar sem hún mun færa fram heillaóskir frá Alþingi Íslendinga. Það er vel, en ég óska þess að hún taki við það tækifæri undir áhyggjur Evrópuþingsins af lögunum sem Amnesty International kalla „alvarlega tímaskekkju í ljósi reglna Evrópusambandsins um bann við mismunun“. Við það tækifæri er einnig eðlilegt að benda á að lögin stríða, að mati samtakanna, með leyfi forseta, „bæði gegn alþjóðlegum og svæðisbundnum mannréttindasamningum. Lögin skerða tjáningarfrelsi og vanvirða bann við mismunun, auk þess sem þau kynda undir fordóma í garð samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans einstaklinga“.

Ég tel mikilvægt að forseti lýsi þessari afstöðu því að þessi löggjöf Litháa stríðir gegn þeim mannréttindum sem Alþingi Íslendinga hefur markvisst barist fyrir með margvíslegum réttarbótum til handa samkynhneigðum síðustu áratugina.

Frú forseti. Ég óska eftir að þú takir þessari ósk minni með jákvæðum hætti og berir fram þessar áhyggjur við litháíska þingið. (Gripið fram í.)